Viðskipti innlent

SÍ segist líklega munu tapa á FIH

Helgi Hjörvar.
Helgi Hjörvar.
Vegna tímaskorts var verklagsreglum ekki fylgt þegar ákvörðun var tekin um lán upp á 500 milljónir evra, 6. október 2008. Af sömu ástæðu var ekki kannað hver staða Seðlabankans væri varðandi fullnustu á veðinu sem Kaupþing lagði fram, sem var hlutur í danska bankanum FIH.

Þetta kemur fram í svari Seðlabanka Íslands við spurningum Helga Hjörvar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, um málið. Þar segir að þegar reglur um verklag í neyðarástandi séu samdar liggi ekki fyrir hverjar raunverulegar aðstæður verði. Þær hafi verið með þeim hætti að ekki hafi gefist tími til að fylgja þeim, daginn sem lánið var veitt.

Í svarinu kemur einnig fram að miðað við núverandi stöðu séu líkur á að hluti fjárins geti tapast. Það komi þó ekki í ljós fyrr en 2016.

Helgi segir svarið sýna að umtalsverðir fjármunir geti glatast, öfugt við það sem haldið hafi verið fram. Það hve aðdragandi lánveitingarinnar hafi verið sérstakur kalli á að kanna hann til hlítar.

„Efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd hafa fundað tvívegis um málið. Við munum taka til frekari umfjöllunar hvort og þá hvernig eigi að halda áfram athugun málsins."

Í svari Seðlabankans kemur fram að öll meðferð málsins og ákvarðanataka hafi verið hjá æðstu stjórn bankans.

- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×