Viðskipti innlent

FME hefur lokið rannsókn 149 mála

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur lokið rannsóknum á 149 málum tengdum bankahruninu en alls hefur FME tekið 191 mál til rannsóknar. Stefnt er að því að rannsóknum á öllum málunum verði lokið í árslok. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fyrsta eintaki Fjármála, nýs vefrits FME.

Í ritinu er að finna grein um rannsóknir FME á aðdraganda bankahrunsins. Þar segir að stuttu eftir hrun hafi sérstakur rannsóknarhópur verið settur á laggirnar innan FME til að sinna eingöngu rannsóknum tengdum hruninu. Hafi rannsóknirnar síðan aukist að umfangi og nú eru tveir rannsóknarhópar að störfum sem í starfa samtals fjórtán manns.

Þá kemur fram í ritinu að þau lögbrot sem rannsakendur hafa hnotið um ná yfir nánast alla flokka meintra efnahagsbrota. Þau brot sem kærð hafi verið til embættis sérstaks saksóknara séu einkum brot sem varða meinta markaðsmisnotkun og innherjasvik. Þá hefur FME jafnframt kært brot á lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um starfsemi lífeyrissjóða og lögum um vátryggingafélög.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×