Það er risaleikur í Vodafone-höllinni klukkan 14.00 í dag þegar Íslandsmeistarar Vals taka á móti Fram í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil kvenna.
Fram tryggði sér oddaleik með dramatískum eins marks sigri í Safamýri á miðvikudaginn en Framkonur geta í dag unnið sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil síðan 1990. Valskonur geta aftur á móti unnið Fram í lokaúrslitum þriðja árið í röð.
Þetta er fyrsti oddaleikurinn um titilinn hjá konunum síðan 2002 þegar Haukar unnu Stjörnuna með 19 mörkum gegn 18. Stjarnan og Haukar voru þá að spila fjórða úrslitaleikinn um titilinn á aðeins sex árum (1996, 1997, 1998) en Víkingur vann Stjörnuna 24-21 í fyrsta oddaleiknum árið 1992.
Stella Sigurðardóttir skoraði sigurmark Fram í síðasta leik og er langmarkahæsti leikmaður lokaúrslitanna með 31 mark eða 7,8 að meðaltali í leik. Hún hefur skorað 21 mark í sigurleikjunum tveimur en aðeins 10 mörk í tapleikjunum.

