Erlent

Hélt strax á fund við Merkel

Sarkozy kveður, Hollande tekur við Nicolas Sarkozy og François Hollande tókust í hendur fyrir utan Elysee-höllina í París.Fréttablaðið/AP
Sarkozy kveður, Hollande tekur við Nicolas Sarkozy og François Hollande tókust í hendur fyrir utan Elysee-höllina í París.Fréttablaðið/AP
Aðeins fáeinum klukkustundum eftir að François Hollande tók við forsetaembættinu í Frakklandi hélt hann til Þýskalands á fund við Angelu Merkel kanslara.

Hollande vill stefnubreytingu í viðbrögðum við skuldakreppu evruríkjanna. Dregið verði úr einstrengingslegri áherslu á sparnað í ríkisfjármálum en þess í stað lögð áhersla á að styrkja velferðarkerfið og nota ríkisfé til að koma hagvexti af stað.

„Ég legg til að gerður verði nýr samningur þar sem nauðsynleg skuldalækkun verði tengd óhjákvæmilegri örvun efnahagsins," sagði Hollande.

Hugmyndir hans ganga þvert á stefnu Angelu Merkel og Nicolas Sarkozy, forvera Hollandes á forsetastól í Frakklandi. Hollande á því töluvert verk fyrir höndum við að sannfæra Merkel og suma aðra leiðtoga evrusvæðisins.

Áður en Hollande hélt af stað til Þýskalands gaf hann sér þó tíma til að tilkynna að Jean-Marc Ayrault verði forsætisráðherra Frakklands. Ayrault er borgarstjóri í Nantes og þingflokksformaður Sósíalistaflokksins.

Ayrault þarf nú að tilnefna ráðherra í ríkisstjórn sína og bera síðan ráðherralistann undir þingið, sem þarf að veita samþykki sitt.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×