Handbolti

Þórir: Togaði í að fá að spila í Meistaradeildinni og að vinna titla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Ólafsson.
Þórir Ólafsson. Mynd/AFP
Þórir Ólafsson og félagar í Vive Targi Kielce urðu um helgina pólskir meistarar í handbolta eftir 27-25 sigur á Wisla Plock Ssa í þriðja leik lokaúrslitanna. Þórir var markahæstur í liði Kielce með sex mörk en liðið vann úrslitaeinvígið 3-0. Þórir er því tvöfaldur meistari á sínu fyrsta ári með pólska liðinu.

„Þetta var kannski ekki auðvelt hjá okkur en þægilegt," sagði Þórir.

„Maður var kannski kominn með leiða á því að vera alltaf fyrir neðan miðju og í botnbaráttunni. Það er langt síðan maður hefur fengið að kynnast því að vera ofarlega og vinna titla eða bara síðan maður var í Haukunum. Þetta var samt öðruvísi núna enda maður orðin eldri. Það er alltaf sætt að klára svona titla og það breytist aldrei," sagði Þórir sem vann Íslandsmeistaratitilinn með Haukum þrjú ár í röð 2002-2005.

„Auðvitað var þetta mikil breyting að skipta í annað land og í aðra deild en ég sé ekkert eftir því. Það togaði í að fá að spila í Meistaradeildinni og að vinna titla. Þetta er búið að vera frábært. Maður vissi að það yrði mikil samkeppni en ég er búinn að fá ágætis traust frá þjálfaranum og fá að spila marga mikilvæga leiki," sagði Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×