Handbolti

Guðmundur: Búinn að vera stórkostlegur tími

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hápunkturinn á landsliðsþjálfaraferli Guðmundar er þegar hann stýrði liðinu í úrslit á ÓL í Peking. Hann fagnar hér sætum sigri í Peking.fréttablaðið/vilhelm
Hápunkturinn á landsliðsþjálfaraferli Guðmundar er þegar hann stýrði liðinu í úrslit á ÓL í Peking. Hann fagnar hér sætum sigri í Peking.fréttablaðið/vilhelm
Það styttist í kveðjustund Guðmundar Guðmundssonar með landsliðið. Það var tilkynnt um helgina að Guðmundur hætti með liðið eftir ÓL í sumar. Hann hefur náð einstökum árangri með landsliðið. Eftir rúmlega fjögur farsæl ár í starfi landsliðsþjálfara styttist í að Guðmundur Guðmundsson láti af störfum. Það gerir hann í ágúst að loknum Ólympíuleikunum.

Undir stjórn Guðmundar hefur landsliðið náð sínum langbesta árangri í sögunni. Stendur þar upp úr silfur á ÓL í Peking og brons á EM í Austurríki. Einu verðlaunin sem íslenska landsliðið hefur fengið á stórmótum.

Áður en kemur að kveðjustund ætlar Guðmundur að koma Íslandi á næsta HM og ná góðum árangri á Ólympíuleikunum.

„Ég er búinn að hugsa þetta lengi en ákvörðunin er nýtilkomin. Það er auðvitað rosalegt álag að vera með tvö stórlið undir sinni stjórn," sagði Guðmundur en hann er einnig þjálfari þýska liðsins Rhein-Neckar Löwen.

„Það er mikið álag þar og margir leikir. Þess vegna mjög erfitt að vera með landsliðið líka til lengri tíma. Minn samningur rennur út í lok sumars með landsliðið og ég vildi ganga frá því snemma hvernig staðan yrði með framhaldið."

Guðmundur segist hafa viljað með þessari ákvörðun senda sínu félagsliði ákveðin skilaboð. Einnig fannst honum gott að HSÍ fengi fínan tíma til þess að finna arftaka hans. Forveri hans, Alfreð Gíslason, hætti einnig vegna álags og sagði þá, eins og Guðmundur þekkir núna, að það sé ekki hægt að vinna þessi tvö störf til lengri tíma. Það sé ekki leggjandi á einn mann.

„Ég er líka með fjölskyldu og undanfarin ár hef ég aldrei fengið frí. Þegar kemur frí þá er ég með landsliðinu. Það sér það hver maður að það er ekki hægt að gera þetta til lengri tíma. Þetta er engu að síður búinn að vera stórkostlegur tími. Hann er ekki búinn og ég er afar spenntur fyrir þeim tveim verkefnum sem eru fram undan."

Það mátti heyra á Guðmundi að honum finnst það ekki auðvelt að sleppa takinu af landsliðinu. „Ég hef virkilega notið þess að vinna með þessum leikmönnum. Það eru forréttindi að þjálfa þessa drengi. Það eru stórkostlegir karakterar í liðinu. Auðvitað er þetta búinn að vera frábær tími og því eðlilega verður eftirsjá þegar þessum tíma lýkur."

Guðmundur hefur fyrir löngu skráð nafn sitt gylltu letri í íslenska handboltasögu og hann er eðlilega stoltur af sínum árangri.

„Ég er mjög stoltur. Gríðarlega. Það er margt sem ég er stoltur af á mínum landsliðsþjálfaraferli og þar á meðal að við erum á leið á okkar þriðju Ólympíuleika í röð. Það eru ekki margar þjóðir sem hafa náð því," sagði Guðmundur en hann hefur enga skoðun á því hver eigi að taka við af honum og ætlar ekki að skipta sér af ráðningarferlinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×