Erlent

30 milljarðar til Spánar í júlílok

Heldur ræðu Jean-Claude Juncker, fjármálaráðherra Lúxemborgar og formaður evruhópsins. Nordicphotos/AFP
Heldur ræðu Jean-Claude Juncker, fjármálaráðherra Lúxemborgar og formaður evruhópsins. Nordicphotos/AFP
Þrjátíu milljörðum evra verður dælt inn í spænska bankakerfið í lok júlímánaðar. Fjármálaráðherrar evruríkjanna sautján samþykktu þetta á fundi í fyrradag.

Einnig var ákveðið á fundi fjármálaráðherra Evrópusambandsins í gær að veita stjórnvöldum á Spáni árs frest til að lækka fjárlagahalla niður fyrir þrjú prósent, en þau mörk setur Evrópusambandið. Fjárlagahallinn er rúmlega sex prósent nú en Spánverjar hafa frest til ársins 2014 til að vinna bug á vandanum.

Ráðherrar evruríkjanna munu koma saman á ný í Brussel þann 20. júlí til að ganga frá samkomulagi um þrjátíu milljarðana. Ákveðið var í síðasta mánuði að bjóða Spánverjum 100 milljarða til að styðja við bankakerfið í landinu, og þessi fjárhæð er hluti af því.

Fjármálaráðherrarnir kusu jafnframt Jean-Claude Juncker, fjármálaráðherra Lúxemborgar, til áframhaldandi setu sem formaður evruhópsins. Hann segist ætla að sitja áfram þar til seint á þessu ári eða snemma á því næsta.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×