Skoðun

Ja hérna, ólýðræðisleg þjóðaratkvæðagreiðsla!

Valgerður Bjarnadóttir skrifar
Stundum verð ég orðlaus, ekki oft samt. Það gerðist þó þegar ég heyrði að formaður Sjálfstæðisflokksins teldi þjóðaratkvæðisgreiðsluna 20. október ólýðræðislega. Mér skildist að það væri vegna þess að hann teldi að stjórnarflokkarnir ætluðu að nota niðurstöðurnar til að rökstyðja það sem best hentaði stefnu þeirra.

Það var stefna stjórnarflokkanna að efna til stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrána. Sjálfstæðisflokkurinn var andvígur því. Málamiðlun náðist á Alþingi um að skipa stjórnlaganefnd, boða til þjóðfundar og loks halda stjórnlagaþing. Mig minnir að það hafi verið hugmynd stjórnarandstöðunnar að halda þjóðfundinn.

Af hverju þessi málamiðlun? Jú, til þess að reyna að vinna það mikilvæga verkefni sem endurskoðun stjórnarskrárinnar er í sem mestu samkomulagi þjóðar og þings. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu ekki atkvæði með heildartillögunni. Þeir voru sjálfum sér samkvæmir í því að þiggja eða kannski taka en gefa ekkert til baka. Líklegast er barnaskapur að ergja sig yfir því.

Þverskurður fólksins í landinu, 950 manns, mætti á þjóðfundinn. 522 – fimm hundruð tuttugu og tveir – buðu sig fram til stjórnlagaþings. Hæstiréttur komst að þeirri skrýtnu niðurstöðu að framkvæmd kosninganna hefði verið á þann veg að rétt væri að ógilda kosninguna. Alþingi ákvað að skipa þá fulltrúa sem hlutu kosningu í stjórnlagaráð.

Stjórnlagaráð náði samkomulagi um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Það hefur Alþingi ekki tekist í gegnum áratugina þrátt fyrir margar stjórnarskrárnefndir. Stjórnlagaráðið byggði á niðurstöðum þjóðfundarins. Nú er fólkið í landinu spurt hvort það vilji að frumvarp að nýrri stjórnarskrá verði byggt á tillögum stjórnlagaráðsins. – Ég fæ ekki séð að það þurfi að túlka niðurstöðu úr þeirri atkvæðagreiðslu. Annaðhvort segir meirihluti þeirra sem taka þátt já eða þeir segja nei. Það er ekki flóknara en það. Ég trúi því að fleiri muni segja já.

Sumir stjórnmálamenn og sumir lögfræðingar telja sig eina til þess fallna að gera tillögu að stjórnarskrá. Þeir telja sig hafa einhverja eiginleika sem við hin höfum ekki. Stjórnarskráin er fyrir okkur öll og hún verður best ef hún kemur frá fólkinu í landinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×