Handbolti

Logi: Þetta er mín lokatilraun

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hinn þrítugi Logi viðurkennir að það hafi ekki verið auðvelt að leggja skóna á hilluna. Hann mun því reyna einu sinni enn.
Hinn þrítugi Logi viðurkennir að það hafi ekki verið auðvelt að leggja skóna á hilluna. Hann mun því reyna einu sinni enn. fréttablaðið/stefán
Logi Geirsson gaf það út fyrir rúmu ári að hann væri hættur handknattleiksiðkun, aðeins 28 ára að aldri. Axlarmeiðsli neyddu hann til þess að hætta. Á þrítugsafmælisdaginn sinn, sem var í gær, gaf Logi það aftur á móti út að hann ætlaði að reyna einu sinni enn.

„Ég ætla að spila minn fyrsta leik með FH í vetur gegn Aftureldingu þann 25. október. Þá verð ég klár í slaginn," sagði Logi ákveðinn.

Eftir að hafa reynt ýmislegt til þess að ná sér góðum af meiðslunum fór hann í ferð til Englands fyrir Ólympíuleikana í sumar og sú ferð breytti miklu.

„Þar hitti ég axlarsérfræðing sem á að vera mjög góður. Eftir að hafa sent honum mína sögu var hann til í að hitta mig. Hann hafði meðhöndlað kastara í krikket sem var með svipuð einkenni og ég. Hann vildi því fá að hitta mig. Meðhöndlunin þar var önnur og smám saman hef ég verið að hressast," sagði stórskyttan kát sem hefur jafnt og þétt verið að bæta sig.

„Ég hef verið að mæta einstaka sinnum á æfingar með FH síðan í sumar og alltaf orðið betri. Nú er ég allt í einu orðinn bestur á æfingum hjá liðinu," sagði Logi kokhraustur, en skortur á sjálfstrausti hefur aldrei verið einn af hans veikleikum.

„Þetta er tíminn til þess að prófa á nýjan leik. Ég spila ekki handbolta þegar ég verð orðinn fimmtugur. Það var ekki auðvelt að gefa handboltann upp á bátinn enda er handbolti það sem ég er bestur í. Ég vil ekkert meira en að spila handbolta sem mér finnst svo skemmtilegt að gera. Þetta hefur verið stigvaxandi hjá mér og því um að gera að láta á þetta reyna."

Þó svo engin trygging sé fyrir því hvort Logi geti verið með liðinu í allan vetur þá hefur Logi strax sett sér háleit markmið.

„Ég hef alltaf gert það og það mun seint breytast. Ég er því að fara að vera með til þess að vinna alla titla. Ég vil hjálpa FH að ná titlinum aftur í Kaplakrika. Þar á Íslandsbikarinn heima," sagði Logi, sem viðurkennir að ef þetta gangi ekki upp núna þá sé handboltinn búið spil.

„Þetta er mín lokatilraun. Ég hef verið að bíða eftir þessu tækifæri og því stekk ég á þetta núna. Ég mun aldrei snerta handbolta aftur um ævina ef þetta gengur ekki upp. Ég get lofað því. Áætlunin er því að koma rólega inn í þetta núna og sjá hvernig fer hjá mér. Ég er samt mættur og ætla mér stóra hluti eins og alltaf."

Þó svo að Logi hafi ekki spilað handbolta lengi hefur hann ekki slegið slöku við í ræktinni og er í frábæru líkamlegu formi.

„Ég er tíu kílóum léttari en þegar ég var atvinnumaður. Ég er svínfljótur fyrir vikið. Það er eitthvað sem ég verð að nýta mér," sagði Logi Geirsson, en endurkoma hans mun klárlega lífga mikið upp á N1-deildina enda var Logi einn litríkasti karakterinn í íslensku íþróttalífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×