Erlent

Enn munar mjóu á frambjóðendunum

Romney og Obama Síðustu kappræðurnar skipta vart sköpum þótt staða Obamas hafi skánað.Fréttablaðið/AP
Romney og Obama Síðustu kappræðurnar skipta vart sköpum þótt staða Obamas hafi skánað.Fréttablaðið/AP
Þeir Barack Obama og Mitt Romney þurfa að leggja hart að sér til að ná eyrum óákveðinna kjósenda á miðjunni þær tvær vikur sem eftir eru fram að forsetakosningum í Bandaríkjunum.

Obama þótti standa sig mun betur en Romney í síðustu sjónvarpskappræðum þeirra, sem haldnar voru á mánudagskvöld. Áherslan var á utanríkismál, þar sem Obama er á heimavelli en Romney reynslulítill.

Greinilegt var á málflutningi Romneys að hann reyndi að færa sig nær miðjunni í þessum málaflokki en hann hefur gert til þessa.

Obama notaði hins vegar hvert tækifæri til að koma að þeim áformum sem hann hefur um uppbyggingu innanlands á næstu árum, þegar herinn verður farinn frá Afganistan.

Stærstu mistök Romneys voru þegar hann tók að gagnrýna Obama fyrir að bandarískum herskipum hefði fækkað mjög síðan 1916.

Obama svaraði því til að í hernum væru líka færri hestar og byssustingir en þá, enda ekki eins mikil þörf fyrir þá lengur:

„Við erum með þessa hluti sem kallaðir eru flugmóðurskip, sem flugvélar lenda á. Við erum líka með þessi skip sem sigla neðansjávar, kölluð kafbátar. Þetta snýst ekki um leik sem heitir Orrustuskip, þar sem við teljum skipin."- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×