Nike íhugar nú að hætta samstarfi við suður-afríska spretthlauparann Oscar Pistorius en hann sætir nú ákæru fyrir að hafa skotið kærustu sína, fyrirsætuna, Reevu Steenkamp á heimili þeirra í Pretoríu í Suður-Afríku.
Nike, sem er einn stærsti styrktaraðili Pistorius, hefur nú tekið úr birtingu auglýsingar með spretthlauparanum og aðrir íhuga að gera slíkt hið sama.
Pistorius hefur neitað sök og brast í grát í réttarsal þegar ákæra á hendur honum var þingfest.
Vitni segjast hafa séð Pistorius bera Steenkamp niður stiga fyrir utan heimili þeirra og reyna lífgunartilraunir áður en sjúkraflutningamenn komu á vettvang. Steenkamp, sem var skotin fjórum sinnum, var úskurðuð látin á vettvangi.
