Körfubolti

Haminn nýr liðsfélagi Bullock og Watson í Finnlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haminn Quaintance.
Haminn Quaintance. Mynd/Vlhelm
Haminn Quaintance dó ekki ráðalaus eftir að hann var rekinn frá Skallagrími í síðustu viku því kappinnn er þegar búinn að finna sér nýtt félag. Quaintance mun klára tímabilið með Kauhajoen Karhu í finnsku úrvalsdeildinni. Þetta kom fram á karfan.is.

Með Kauhajoen Karhu spila einmitt þeir J'Nathan Bullock og Giordan Watson sem urðu Íslandsmeistarar með Grindavíkurliðinu í fyrra. Bullock er áttundi stigahæsti leikmaður finnsku deildarinnar með 17,2 stig og 7,3 fráköst í leik en Watson hefur skorað 13,8 stig í leik auk þess að senda 4,2 stoðsendingar að meðaltali.

Haminn Quaintance kemur í staðinn fyrir Bandaríkjamanninn Tremaine Ford sem meiddist. Ford var með 12,5 stig og 9,0 fráköst að meðaltali í leik.

Haminn Quaintance var frábær með Skallagrím fyrir áramót en kom eitthvað illa upplagður til baka eftir jólafríið. Quaintance var engu að síður mest hæsta framlagið í Dominos-deild karla þegar hann var rekinn en hann var með 20,0 stig, 12,9 fráköst og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í tólf leikjum með Borgarnesliðinu.

Kauhajoen Karhu er nú í fimmta sæti deildarinnar með 18 sigra í 29 leikjum. Það eru tíu stig í næsta lið fyrir neðan en liðið er síðan fjórum stigum frá fjórða sætinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×