Fótbolti

Bayern óstöðvandi | Skoraði sex gegn Bremen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mario Gomez, Arjen Robben, Franck Ribery og Xherdan Shaqiri fagna í dag.
Mario Gomez, Arjen Robben, Franck Ribery og Xherdan Shaqiri fagna í dag. Nordic Photos / Getty Images
Bayern München er sem fyrr á mikilli siglingu í þýsku úrvalsdeildinni en í dag vann liðið 6-1 sigur á Werder Bremen á heimavelli.

Mario Gomez skoraði tvívegis í leiknum en þeir Arjen Robben, Franck Ribery, Javi Martinez eitt hver auk þess sem að eitt markanna var sjálfsmark.

Kevin De Bruyne skoraði mark Bremen snemma í síðari hálfleik og minnkaði þá muninn í 4-1. Þess má þó geta að Bremen missti Sebastian Prödl af velli með rautt spjald í lok fyrri hálfleiks en þá var staðan 2-0.

Bayern gat leyft sér að hvíla markahæsta leikmann deildarinnar, Mario Mandzukic, í dag. Gomez naut góðs af því en hann er nú kominn með fimm mörk á tímabilinu.

Liðið er með átján stiga forystu í deildinni en fyrr í vikunni vann það 3-1 sigur á Arsenal í Lundúnum í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Úrslit dagsins:

FC Bayern - Bremen 6-1

Hannover - Hamburg 5-1

Augsburg - Hoffenheim 2-1

Mainz - Wolfsburg 1-1

Stuttgart - Nürnberg 1-1

Schalke - Fortuna Düsseldorf (hefst klukkan 17.30)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×