Körfubolti

Martin átti metið bara í sólarhring - Elvar nú sá yngsti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. Mynd/Valli
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Martin Hermannsson hafi sett nýtt met á fimmtudagskvöldið með því að vera yngsti leikmaðurinn sem nær að skora yfir 30 stig í einum í leik í úrslitakeppni karla í körfubolta.

Það var alveg hárrétt en Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson bætti hinsvegar metið eftir að Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi. Martin átti því bara metið í einn sólarhring en það hefði verið í eigu Brynjars Þórs Björnssonar í sex ár þar á undan.

Elvar Már og Martin eru báðir fæddir árið 1994, Martin 16. september en Elvar 11. nóvember. Martin var 18 ára, 6 mánaða og 5 daga þegar hann braut 30 stiga múrinn á fimmtudagskvöld en Elvar Már var aðeins 18 ára, 4 mánaða og 11 daga þegar hann skoraði 35 stig í Stykkishólmi í gærkvöldi.

Elvar Már skoraði 22 stig í fyrri hálfleiknum og var kominn með 30 stig fyrir lok þriðja leikhlutans. Honum tókst þó ekki að skora á síðustu tveimur og hálfri mínútu leiksins ekki frekar en öðrum leikmönnum Njarðvíkurliðsins og á meðan tryggði Snæfellingar sér 79-78 sigur.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þeim Elvari og Martin í næstu leikjum í úrslitakeppninni og áhugavert hvort að þeim takist að fylgja eftir þessu eftir. Hér fyrir neðan er síðan uppfærður listi frá því í Fréttablaðinu í morgun.



Yngstu leikmenn til þess að skora 30 stig í einum leik í úrslitakeppni:

1. sæti Elvar Már Friðriksson

18 ára, 4 mánaða og 11 daga

35 stig á móti Snæfelli 22. mars 2013

2. sæti Martin Hermannsson, KR

18 ára, 6 mánaða og 5 daga

33 stig á móti Þór Þorlákshöfn 21. mars 2013

3. sæti Brynjar Þór Björnsson

18 ára, 8 mánaða og 20 daga

31 stig á móti Snæfelli 31. mars 2007

4. sæti Logi Gunnarsson, Njarðvík

19 ára, 7 mánaða og 5 daga

36 stig á móti Tindastól 17. apríl 2001

5. sæti Logi Gunnarsson, Njarðvík

19 ára, 7 mánaða og 12 daga

36 stig á móti Tindastól 17. apríl 2001

6. sæti Hjörtur Harðarson, Grindavík

21 árs, 11 mánaða og 22 daga

37 stig á móti Njarðvík 7. apríl 1994




Fleiri fréttir

Sjá meira


×