Körfubolti

NBA í nótt: Lakers 2-0 undir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik San Antonio og Lakers í nótt.
Úr leik San Antonio og Lakers í nótt. Mynd/AP
Þrír leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Þar náðu heimaliðin öll 2-0 forystu í sínum rimmum.

San Antonio vann LA Lakers, 102-91, en síðarnefnda liðið er vitanlega enn án Kobe Bryant sem spilar ekki meira á tímabilinu. Hann sleit nýverið hásin.

Tony Parker var með 28 stig og sjö stoðsendingar en þeir Tum Duncan og Kawhi Leonard voru með sextán stig hvor.

Dwight Howard og Steve Blake voru með sextán stig hvor fyrir Lakers en skotnýting liðsins var undir 50 prósentum í nótt.

Oklahoma City marði Houston, 105-102, þar sem James Harden reyndist sínum gömlu félögum erfiður.

Hann skoraði 36 stig fyrir Houston og var aðalmaðurinn í 21-2 spretti liðsins sem náði fjögurra stiga forystu, 95-91, þegar lítið var eftir.

En Kevin Durant tók þá til sinna mála og kláraði leikinn. Hann setti niður stóran þrist þegar rúmar tvær mínútur voru eftir og Oklahoma City lét ekki forystuna af hendi eftir það.

Durant og Russel Westbrook skoruðu 29 stig hvor fyrir Oklahoma City.

Indiana vann Atlanta, 113-98, þar sem Paul George átti enn einn stórleikinn. Hann náði þrefaldri tvennu í síðasta leik en skoraði 27 stig í nótt sem persónulegt met í úrslitakeppni.

George var þar að auki með átta fráköst, þrjár stoðsendingar og fjóra stolna bolta. George hill var með 22 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×