Handbolti

Bara eitt lið hefur komist alla leið í oddaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Fram og Haukar mætast í kvöld í fjórða leik sínum í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í N1 deild karla í handbolta. Fram komst í 2-0 í einvíginu en tókst ekki að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í leik þrjú á laugardaginn.

Haukar urðu áttunda félagið sem lendir 0-2 undir í lokaúrslitum Íslandsmeistaramótsins í handbolta en aðeins fjögur af hinum sjö liðum sem höfðu lent 0-2 undir í lokaúrslitum tókst að tryggja sér leik fjögur. Þrjú af þeim töpuðu hinsvegar leik fjögur og einvíginu þar með 1-3.

Það er því bara eitt lið sem hefur komist alla leið í oddaleik eftir að hafa lent 0-2 undir í úrslitaeinvíginu og það er lið KA frá árinu 2002. KA-menn gerðu gott betur en að tryggja sér oddaleik því þeir unnu þrjá leiki í röð og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn.

Nú er að sjá hvort Haukum tekst að tryggja sér oddaleikinn sem fer þá fram í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í Hafnarfriði á miðvikudagkvöldið.

Leikurinn í kvöld fer hinsvegar fram í Framhúsinu í Safamýri, hefst klukkan 19.45 og verður í beinni textalýsingu hér inn á Vísi. Framarar geta þá eins og í síðasta leik tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sjö ár.

Lið sem hafa lent 2-0 undir í lokaúrslitum í karlahandboltanum:

1996: KA* á móti Val - tapaði 1-3

1998: Fram* á móti Val - tapaði 1-3

2002: KA á móti Val - vann 3-2

2004: Valur á móti Haukum - tapaði 0-3

2005: ÍBV á móti Haukum - tapaði 0-3

2011: Akureyri* á móti FH - tapaði 1-3

2012: FH* á móti HK - tapaði 0-3

* Var með heimavallarrétt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×