Körfubolti

Indiana knúði fram oddaleik

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Heat réð ekkert við George og Hibbert
Heat réð ekkert við George og Hibbert Mynd/Nordic Photos/Getty

Indiana Pacers skellti Miami Heat 91-77 í sjötta leik liðanna í úrslitum Austurstrandar NBA deildarinnar í körfubolta í nótt. Indiana lagði grunninn að sigrinum með frábærum varnarleik, ekki síst í þriðja leikhluta.

Heat var einu stigi yfir í hálfleik 40-39 en hitni liðanna í fyrri hálfleik var mjög slök. Vandræði Heat í sókninni héldu áfram í þriðja leikhluta en þá snögg hitnaði lið Pacers sem náði þrettán stiga forystu 68-55 fyrir fjórða leikhluta.

Heat náði aldrei að minnka muninn að neinu ráði og vann Pacers því sannfærandi og öruggan sigur 91-77.

LeBron James fór fyrir liði Heat eins og vanalega og fékk svo gott sem enga hjálp í leiknum. James skoraði 29 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Mario Chalmers og Dwyane Wade skoruðu 10 stig hvor en Wade hitti aðeins úr 3 af 11 skotum sínum.

Vandræði Chris Bosh gegn Pacers halda áfram. Hann virðist ekkert ráða við stóru mennina hjá Pacers og skoraði aðeins 5 stig og tók 4 fráköst en hann hitti úr 1 af 8 skotum sínum í leiknum auk þess að tapa boltanum í þrígang.

Paul George og Roy Hibbert fóru á kostum í leiknum. Hibbert var stórkostlegur í vörninni auk þess að skora 24 stig og taka 11 fráköst. George skoraði 28 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. George Hill skoraði 16 stig og David West 11 en hann tók líka 14 fráköst en Pacers tóku 20 fleiri fráköst en Heat í leiknum.

Oddaleikurinn verður leikinn á mánudagskvöld, rétt eftir miðnætti aðfaranótt þriðjudags, í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×