Körfubolti

Grindvíkingar búnir að reka Kana númer tvö

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Broussard og Samuel Zeglinski voru frábærir á síðustu leiktíð.
Aaron Broussard og Samuel Zeglinski voru frábærir á síðustu leiktíð. Mynd/Daníel
Það ætlar að ganga illa hjá Grindavík að finna sér bandarískan leikmann fyrir baráttuna í Domnios-deild karla í körfubolta í vetur því Kendall Timmons mun ekki spila áfram með Íslandsmeisturunum.

Það eru aðeins búnar tvær umferðir af deildinni en Grindvíkingar eru engu að síður að leita sér að Kana númer þrjú.

Á heimasíðu Grindavíkur kemur fram að Kendall Timmons hafi verið sagt upp störfum í gær. "Kendall stóðst ekki væntingar Grindvíkinga og því verður enn og aftur boðið upp í dans. Hver dansherrann verður á eftir að koma í ljós en leit stendur yfir," segir í fréttinni á heimasíðu Grindavíkur.

Kendall Timmons var með 14,5 stig og 9,0 fráköst í tveimur leikjum sínum í Domnios-deildinni þar sem Grindavík lá á heimavelli á móti KR og vann sigur á nýliðum Hauka eftir tvíframlengdan leik.

Christopher Stephenson spilaði með Grindavík í Lengjubikarnum en var látinn fara eftir að hafa skilað aðeins 10,0 stigum að meðaltali í leik.

Grindvíkingar hafa átt besta erlenda leikmanninn í úrvalsdeildinni undanfarin tvö tímabili (Aaron Broussard 2012-13 og J´Nathan Bullock 2011-12) og eru því svo sannarlega góðu vanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×