Körfubolti

NBA: Miami kláraði Chicago og Lakers vann óvænt í LA-slagnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
NBA-deildin í körfubolta hófst í nótt með þremur leikjum og þótt að flestir hafi fylgst með sigri NBA-meistara Miami Heat á Chicago Bulls þá mun ekkert færri ræða óvæntan sigur Los Angeles Lakers á nágrönnum sínum í Los Angeles Clippers.

LeBron James var með 17 stig, 9 stoðsendingar og 6 fráköst þegar Miami Heat vann 107-95 heimasigur á Chicago Bulls. Bulls-liðið komst í 9-2 í upphafi leiks en Miami vann restina af fyrri hálfleiknum 52-24 og var með leikinn í sínum höndum eftir það.

Chris Bosh skoraði 16 stig fyrir Miami og Shane Battier var með 14 stig á 22 mínútum en hann hitti úr öllum fjórum þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Dwyane Wade og Mario Chalmers skoruðu báðir 13 stig.

Chicago Bulls átti tvo stigahæstu leikmenn vallarins í þeim Carlos Boozer (31 stig) og Jimmy Butler (20 stig) en Derrick Rose (12 stig, 4 stoðsendingar) hitti aðeins úr 4 af 15 skotum sínum og var að auki með fimm tapaða bolta.

Los Angeles Lakers lék fyrsta leikinn án Kobe Bryant en það kom ekki í veg fyrir glæsilegan 116-103 sigur á nágrönnunum í Los Angeles Clippers sem flestir töldu að væru með miklu betra lið í vetur.

Pau Gasol og Steve Nash horfðu á allan fjórða leikhlutann á bekknum því á meðan voru varamennirnir að blómstra. Xavier Henry setti persónulegt met með því að skora 22 stig og Jordan Farmar bætti við 16 stigum. Jodie Meeks (13 stig), Jordan Hill (12) og Chris Kaman (10) voru þrír varamenn til viðbótar sem komust í tíu stigin en Lakers-liðið vann lokaleikhlutann 41-24.

Blake Griffin skoraði 18 stig fyrir Los Angeles Clippers, DeAndre Jordan var með 17 stig og 11 fráköst og Chris Paul skoraði 15 stig, gaf 11 stoðsendingar og stal 5 boltum.

Paul George skoraði 24 stig og Lance Stephenson var með 19 stig þegar Indiana Pacers vann 97-87 sigur á Orlando Magic. Roy Hibbert var frábær með 16 fráköst og 7 varin skot á 27 mínútum en Andrew Nicholson skoraði mest fyrir Orlando eða 18 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×