Körfubolti

Kobe Bryant fékk feitan tékka í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Mynd/NordicPhotos/Getty
Kobe Bryant er ekki enn farinn að spila með Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta enda að ná sér eftir hásinarslit. Þessi snjalli leikmaður hafði þó ástæðu til að brosa í gær þegar hann fékk risastóra upphæð inn á bankareikning sinn.

Kobe Bryant skrifaði undir nýjan samning við Lakers í apríl 2010 þegar hann var á leiðinni að vinna annan meistaratitilinn á tveimur árum.

NBA-leikmenn fá vanalega útborgað jafnt og þétt yfir árið en Kobe Bryant er enginn venjulegur leikmaður.

Í umræddum samningi hans frá því 2010 var klausa um að Los Angeles Lakers myndi borga honum 24,3 milljónir dollara á einu bretti 1. nóvember 2013. Þetta eru rétt tæplega þrír milljarðar í íslenskum krónum.

Skatturinn mun væntanlega taka 55 prósent af þessari upphæð og því fær Kobe líklega bara að komast yfir 11 milljónir dollara en það er svo sem ekkert slæmt að fá 1,3 milljarð íslenskra króna inn á reikninginn sinn á einum og sama deginum.

Bryant fær 30 milljónir dollara fyrir allt tímabilið og Lakers mun borga honum restina, 6 milljónir dollara, jafnt og þétt það sem eftir lifir tímabilsins. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×