Körfubolti

„Vil sýna að ég er besti miðherji deildarinnar“

Daníel Rúnarsson skrifar
Mynd/Heimasíða Þórs
Miðherjinn Ragnar Nathanaelsson var kokhraustur eftir sigur Þórs úr Þorlákshöfn á Skallagrími í Dominos's-deild karla í körfubolta í kvöld.

„Við höfum verið að mæta í undanfarna leiki eins og við séum betri og höfum tapað þremur leikjum í röð. Í dag mættum við bara með hausinn í lagi og áttum frábæran leik fyrir utan fjórða leikhluta þar sem við hættum að spila vörn," sagði Ragnar Nathanaelsson, miðherjinn öflugi úr liði Þórs.

„Ég var mjög sáttur við minn leik (24 stig, 12 fráköst). Ég æfði vel með landsliðinu í sumar og fékk þá góða aukaþjálfun í grunnatriðum leiksins sem mig skorti aðeins. Núna vill ég bara sanna mig og sýna að ég er besti centerinn í þessari deild."

Hinn stóri og stæðilegi Grétar Erlendsson lék sinn fyrsta leik í Icelandic Glacial höllinni eftir að hafa skipt frá Þór og yfir í Skallagrím fyrir sumarið. Var frákastabaráttan hörð í teignum?

„Já, ég allavega vann baráttuna í dag. Við vildum líka bara sýnna Grétari að hann gerði mistök með því að fara yfir til Skallagríms. En við mætumst aftur á sunnudaginn í bikarnum þannig að ég verð að passa mig að vera ekki of kokhraustur." sagði þessi skemmtilegi leikmaður að lokum.

Umfjöllun og viðtöl úr Glacial-höllinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×