Körfubolti

Snæfell ekki búið að vinna útileik í þrjú ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nonni Mæju
Nonni Mæju
Stjarnan tekur á móti Snæfelli í Ásgarði í kvöld í öðrum leik liðanna í undanúrslitaeinvígi Dominos-deildar karla í körfubolta. Snæfell vann eins stigs sigur í fyrsta leiknum í Stykkishólmi, 91-90.

Snæfellsliðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta vorið 2010 með mögnuðum 36 stiga stórsigri í Keflavík, 105-69, í hreinum úrslitaleik um titilinn. Þessi leikur er öllum Hólmurum örugglega enn í fersku minni en þetta er einnig síðasti sigurleikur Snæfells á útivelli í úrslitakeppninni.

Síðan hefur Snæfell tapað fimm útileikjum í röð, þar á meðal með fimmtán stigum í Njarðvík, 90-105, í átta liða úrslitunum, sem er eini útileikur liðsins til þessa í úrslitakeppninni 2013.

Snæfellingar tæmdu kannski útivallasigrareikning sinn í úrslitakeppninni 2010 en liðið vann þá alls sex af sjö útileikjum sínum og eina tapið kom þá í leik eitt í lokaúrslitunum.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.15 og er einnig í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×