Körfubolti

Vinnum allt að ári

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Böðvar Guðjónsson með Brynjari Þór Björnssyni og Helga Má Magnússyni.
Böðvar Guðjónsson með Brynjari Þór Björnssyni og Helga Má Magnússyni. Mynd/Ernir
KR-ingar fóru sérstaka leið með karlalið sitt í vetur. Þeir voru eina liðið í Dominos-deildinni sem treysti á Íslendinga í lykilhlutverkum. Þeir strákar voru þess utan uppaldir hjá félaginu. Til stuðnings voru fengnir ódýrir erlendir leikmenn sem höfðu ákaflega lítið fram að færa.

Þessi virðingarverða tilraun skilaði liðinu í undanúrslit gegn Grindavík þar sem liðið virkaði alltaf númeri minna.

„Það var ekkert sem benti til þess að þetta KR-lið væri á leið í undanúrslit er við lentum í sjöunda sæti í deildinni. Við náðum að snúa blaðinu aðeins við en lengra komumst við ekki. Grindavík er búið að vera jafnbesta liðið í vetur og við réðum ekki við þá,“ sagði Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR. Er hann sáttur við árangurinn og þá stefnu sem félagið tók?

„Það gefur augaleið að við erum aldrei sáttir nema við vinnum titilinn. Þannig er metnaðurinn í Vesturbænum. Ef við horfum á tímabilið í heildina og liðin í deildinni þá sjáum við hvað íslenski körfuboltinn snýst um. Þeir sem eru að draga vagninn í öðrum liðum eru útlendingarnir,“ sagði Böðvar og bendir á lokaleikinn gegn Grindavík.

„Grindavík er með Aaron Broussard sem klárar leikinn fyrir þá. Zeglinski skorar líka mikið. Ef við hefðum verið með Aaron Broussard í okkar liði í vetur þá værum við búnir að slá Grindvíkingana út.“

Fyrst að staðan er þannig er eðlilegt að spyrja hvort það hafi verið mistök að fara með þetta upplegg inn í mótið?

„Eigum við ekki frekar að segja að við því miður lentum við í vandræðum með útlendinga í vetur. Við skiptum upprunalegu mönnunum út og annar þeirra sem kom eftir áramót olli vonbrigðum. Ég sé ekki eftir neinu. Við tókum þessa ákvörðun og komumst í undanúrslit eftir erfiðan vetur,“ sagði Böðvar en hann viðurkennir að útlendingarnir hafi verið ekki jafn dýrir og undanfarin ár. Spilamennskan gaf það reyndar til kynna.

Breytingar verða á deildinni næsta vetur þar sem aðeins einn útlendingur má vera inni á hverju sinni.

„Sem betur fer er fjórir plús einn kerfi á næsta ári og ég ætla rétt að vona að hreyfingin fari ekki að hringla með það aftur. Það er komið nóg af því. Við stöndum vel að vígi á næsta ári og þá verðum við með fantalið. Við erum bjartsýnir fyrir næsta vetur,“ sagði Böðvar en hann gerir ekki ráð fyrir miklum breytingum á liðinu fyrir utan að Kristófer Acox er á leiðinni utan í skóla. KR mun aftur á móti líklega endurheimta Matthías Orra Sigurðsson, sem er á heimleið frá Bandaríkjunum.

Fyrir utan að spila á heimamönnum þá var Helgi Már Magnússon bæði leikmaður og þjálfari. Hann gaf til kynna eftir leikinn á fimmtudag að hann myndi jafnvel hætta með liðið.

„Það hentar honum betur að vera bara leikmaður því hann er í fullri vinnu eins og margir aðrir. Við munum skoða þjálfaramálin í næstu viku. Við munum ekki leita til útlanda í þeim málum. Við erum með fullt af flottum þjálfurum í KR og byrjum á að horfa á þá,“ sagði Böðvar. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari kvennaliðsins, kom á bekk karlaliðsins eftir áramót og var Böðvar ánægður með hans framlag.

Formaðurinn er kokhraustur fyrir næsta tímabil og segir að menn hugsi stórt í Vesturbænum.

„Við ætlum að byrja á því að vinna Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki núna. Það er alveg ljóst að þetta verður ekki titlalaust ár í Vesturbænum. Síðan ætlum við að taka allt sem í boði er í karla- og kvennaflokki á næsta ári.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×