Skoðun

Hommaregnboginn brennur

Pawel Bartoszek skrifar
Í fimmta skipti á tveimur árum var kveikt í risastórum regnboga sem stendur á torgi Frelsarans (plac Zbawiciela) í Varsjá. Í eitt af þeim skiptum var hugsanlega um slys að ræða (eldurinn kviknaði út frá flugeldi) en annars voru skemmdarvargar að verki. Nú seinast, á þjóðatíðardeginum 11. nóvember, báru þjóðernissinnar eld að listaverkinu svo litskrúðugu gerviblómin sem það skreyttu brunnu til kaldra kola. Eftir stendur nakinn stálboginn.

Bara pæling: Þegar einhver hugsar: ?Í dag ætla ég að kveikja í regnboga,? dettur honum ekki í hug að hann gæti hugsanlega, bara hugsanlega, verið í vonda liðinu?

Þess má geta að þegar boginn brann, nú fyrir rúmri viku, var viðgerðum á honum nýlokið eftir seinustu íkveikju. Yfirvöld höfuðborgarinnar borguðu fyrir þá viðgerð. Líkt og fyrir þær fyrri. Og líkt og þær munu gera fyrir þá næstu. Og næstu.

Segðu mér hverjir vinir þínir eru?

Lítum nú á tvenn ummæli í tengslum við þennan atburð. Hvor tveggja koma þau frá pólskum hægrimönnum:

Ummæli 1: ?Við þurfum að læra að virða frelsi annarra. Það getur ekki verið þannig að menn eyðileggi almannaeigur bara ef þeim finnst þær ekki vera á réttum stað og ekki líta rétt út. Þess vegna finnst mér að við eigum að endurbyggja þetta í hvert skipti. Því ef við beygjum okkur fyrir skemmdarvörgum þá hafa þeir unnið. Ég mun ekki leyfa þeim að vinna og þess vegna munum við endurbyggja þetta eins oft og þurfa þykir.?

Ummæli 2: ?Hommaregnboginn á torgi Frelsarans brennur. Hvað ætli mötuneytiskerlingin eigi eftir að eyða miklum peningum í endurgerð hans áður en hún ákveður að fjarlægja hann? – Hún er þegar búin að eyða 100 þúsund zlotýum [4 milljónum króna] í að gera hann upp! Hvað væri hægt að brauðfæða mörg svöng börn fyrir það? En hún vill frekar eyða peningum í flugelda og í áróður fyrir hommaskap.?

Fyrri ummælin koma frá Hönnu Gronkiewicz-Waltz, borgarstýru Varsjár. Andstæðingar hennar uppnefna hana ?mötuneytiskerlinguna?. Hún tilheyrir Borgaravettvangi, fyrrverandi systurflokki Sjálfstæðisflokksins.

Seinni ummælin koma frá lögmanninum Bartosz Kownacki, þingmanni Laga og réttlætis, núverandi systurflokki Sjálfstæðisflokksins. Facebook eyddi þeim út. Lögmannafélag Varsjárborgar hefur tekið þau til skoðunar. Einn háttsettur flokksbróðir þingmannsins kallaði þau reyndar heimskuleg og óþörf í útvarpsviðtali í seinustu viku en að öðru leyti virðist flokkurinn ætla að láta þau óátalin. Enda virðast flestir innan Laga og réttlætis vera á svipaðri grunnskoðun þótt þeir styðji ekki beinlínis ofbeldi og vilji ekki samsama sig hægri-þjóðernissinnum. (Pólsk stjórnmál eru eins og þau íslensku, nema spegluð: Því lengra sem farið er til hægri þeim mun smærri eru flokkarnir og því síður geta þeir unnið saman.)

Evrópskir hægrimenn klofna

Fyrir nokkrum árum klufu breskir íhaldsmenn sig úr stóru evrópsku hægriflokkasamtökunum EPP, sem þeim þóttu of Evrópusinnuð, og stofnuðu sín eigin samtök, samtök evrópskra íhaldsmanna og umbótasinna (ECR). Þeirra helstu bandamenn í nýju samtökunum urðu Tékkarnir í ODS og Pólverjarnir í Lögum og réttlæti.

Þá ákvað Sjálfstæðisflokkurinn að segja sig úr EPP og ganga til liðs við ECR, væntanlega vegna þess að síðari samtökin eru evró-skeptískari. Ég get í sjálfu sér skilið að til sé fólk sem vilji dempa federalískar tilhneigingar innan ESB og telji að sambandið eigi að einbeita sér að málum tengdum hinum sameiginlega frjálsa markaði. Það er hins vegar spurning hvort allir bandamenn í þeirri baráttu séu jafn góðir, óháð skoðunum þeirra á öðrum málum.

Er mönnum sama?

Eflaust eiga einhverjir aðrir flokkar á Íslandi sér einhverja vafasama systurflokka hér og þar og kannski ætti ekki að lesa of mikið úr því. En kannski vegna þess að ég hef bakgrunn í þessu tiltekna Evrópuríki þá fyndist mér þægilegra ef íslenskir hægrimenn stæðu þar með þeim hægrimönnum sem leyfa gleðigöngur en ekki þeim sem banna þær. Að þeir stæðu með þeim hægrimönnum sem vilja endurreisa táknmyndir um umburðarlyndi jafnóðum og þær eru eyðilagðar en ekki með þeim hægrimönnum sem vilja fá þær burt og fagna því, leynt eða ljóst, þegar þær brenna.




Skoðun

Sjá meira


×