Körfubolti

NBA í nótt: Miami lagði San Antonio

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Liðin sem léku til úrslita í NBA-deildarinnar á síðasta tímabili mættust í Miami í nótt þar sem að heimamenn höfðu betur.

Miami vann San Antonio, 113-101, þar sem Chris Bosh skoraði 24 stig og nýtti níu af tíu skotum sínum í leiknum. LeBron James var með átján stig og Mario Chalmers sextán.

Wade var notaður sem varamaður í leiknum en hann hefur verið að glíma við meiðsli í hné að undanförnu. Hann var síðast varamaður í leik með Miami árið 2008 en þetta var þriðji sigur liðsins í röð.

Tim Duncan var með 23 stig fyrir San Antonio og Boris Diaw fimmtán.



Golden State vann Portland, 103-88. Stephen Curry átti stórleik og skoraði 38 stig, gaf átta stoðsendingar og tók sjö fráköst.

Heimamenn spiluðu frábær vörn í leiknum og voru komnir með 22 stiga forskot í fjórða leikhluta. Stigahæstur hjá Portland var Wesley Matthews með 21 stig.

Brooklyn vann Boston, 85-79, á útivelli en þetta var í fyrsta sinn sem að Paul Pierce og Kevin Garnett sneru aftur á sinn gamla heimavöll eftir að þeir gengu til liðs við Brooklyn í sumar.

Þeir voru sérstaklega heiðraðir fyrir leik en þeir höfðu hægt um sig í leiknum og skoruðu hvor sex stig. Stigahæstur í sigri Brooklyn var Andray Blatche með sautján stig.

Þetta var níundi sigur Brooklyn í síðustu tíu leikjum liðsins en hitt New York liðið, Knicks, vann sigur á LA Lakers á heimavelli, 110-103. Carmelo Anthony skoraði 35 stig en hann var með 62 stig í leik liðsins aðfaranótt laugardags.



Úrslit næturinnar:

Miami - San Antonio 113-101

New York - LA Lakers 110-103

New Orleans - Orlando 100-92

Cleveland - Phoenix 90-99

Boston - Brooklyn 79-85

Dallas - Detroit 116-106

Golden State - Portland 103-88

Sacramento - Denver 117-125

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×