Íslenski boltinn

Staðfesta að háum upphæðum var veðjað á Þórsleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenskar getraunir hafa kært til lögreglu starfsemi erlendra vefsíðna. Deildarstjóri íslenskra getrauna segir að Íslendingar eigi að fara norsku leiðina og banna greiðslukortasíðum að eiga viðskipti við vefsíðurnar en þetta kom fram í frétt Arnars Björnssonar á Stöð tvö.

Knattspyrnusamband Íslands safnar upplýsingum um leik Þórs og Dalvíkur sem háður var fyrr í þessum mánuði. Leikmenn Þórs neita að hafa veðjað á úrslit leiksins en deildarstjóri íslenskra getrauna hefur upplýsingar um að töluverður fjárhæðum hafi verið veðjað á leikinn.

„Við erum í samstarfi við erlent getraunafyrirtæki sem kannar slíka hluti. Við báðum þá um að kanna þennan tiltekna leik. Þeir gátu staðfest það að það var tippað upphæðum á sigur Þórs og jafnframt var tippað á það að þeir myndu vinna leikinn með meira en þremur mörkum," sagði Pétur Hrafn Sigurðsson, deildarstjóri íslenskra getrauna í samtali við Arnar Björnsson.

Íslenskar getraunir eru í bullandi samkeppni við erlendar vefsíður en hvernig bregðast menn þar á bæ við henni?

„Við höfum kært þessar vefsíður til lögreglu og án árangurs. Það er ólöglegt að tippa á erlendum vefsíðum hér á landi. Það fara héðan að minnsta kosti tveir milljarðar á ári þar sem er tippað á leiki og netpóker á erlendum vefsíðum. Þessir tveir milljarðar renna þá ekki til þeirra fyrirtækja sem bjóða upp á þetta hér á landi," segir Pétur Hrafn.

„Við höfum bent á möguleikann á því að fara sömu leið og Norðmenn. Norðmenn hafa bannað kreditkortafyrirtækjunum að taka við færslum til erlendra getraunafyrirtækja sem eru ólögleg í Noregi. Sú aðferð hefur reynst ágætlega," segir Pétur Hrafn.

Það er hægt að sjá alla frétt Arnars Björnssonar með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×