Körfubolti

KFÍ-menn frusu í lokin og Haukar fóru með bæði stigin úr Jakanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Terrence Watson var öflugur á lokasprettinum.
Terrence Watson var öflugur á lokasprettinum. Vísir/Vilhelm
Haukar unnu fimm stiga sigur á KFÍ, 85-80, í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld en leikurinn fór fram í Jakanum á Ísafirði.

Haukarnir tryggðu sér sigurinn með frábærum endaspretti en KFÍ-liðið var sex stigum yfir, 77-71, þegar fjóara mínútur voru eftir af leiknum.

Haukar unnu síðustu fjórar mínúturnar 14-3 og tryggðu sér mikilvægan sigur í baráttunni um fimmta sætið í deildinni.

Terence Watson var betri en enginn í lokin en hann átti þátt í fjórtán síðustu stigunum, skoraði átta sjálfur og átti einnig tvær stoðsendingar á hinn unga Kára Jónsson sem setti tvo risa þrista niður á lokamínútunum.

Watson endaði leikinn með 27 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar en Haukur Óskarsson skoraði 17 stig. Joshua Brown skoraði 31 stig og tók 10 fráköst fyrir KFÍ.

KFÍ missti þar með að tækifærinu að komast upp fyrir Skallagrím og upp úr fallsæti deildarinnar.

Haukarnir unnu fyrsta leikhlutann 31-18 en heimamenn í KFÍ gerðu mjög vel að snúa við leiknum með því að vinna annan leikhlutann 25-17 og þriðja leikhlutann 24-16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×