Sport

UFC 170 í beinni á Stöð 2 Sport annað kvöld

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Ronda Rousey og Sara McMann
Ronda Rousey og Sara McMann Vísir/Getty
UFC 170 fer fram annað kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport kl þrjú aðfaranótt sunnudags. Í aðalbardaga kvöldsins mætast Ólympíufararnir Ronda Rousey og Sara McMann í titilbardaga í bantamvigt kvenna og einn besti glímumaður veraldar, Demian Maia, berst gegn Rory MacDonald.

Ronda Rousey (8-0) vs. Sara McMann (7-0) - titilbardagi í bantamvigt kvenna


Í aðalbardaga kvöldsins mætast þær Ronda Rousey og Sara McMann um bantamvigtartitil kvenna.

Ronda Rousey er ein stærsta stjarna í heimi bardagaíþróttanna þessa stundina. Hún er ósigrðuð í 8 bardögum en hún hefur sigrað alla bardaga sína með sama uppgjafartakinu, armbar. Rousey kemur úr júdói og átti glæstan feril þar en hæst ber að nefna brons verðlaun hennar á Ólympíuleikunum í Beijing 2008. Eftir Ólympíuleikana ákvað hún að segja skilið við júdó og snéri sér að MMA, aðeins 21 árs að aldri. Eins og áður segir er hún ósigruð og fram að síðasta bardaga hennar hafði hún sigrað alla bardaga sína í fyrstu lotu. Hún nýtir sér yfirburði sína í júdó til að koma andstæðing sínum í gólfið þar sem hún fær þá til að gefast upp eftir armbar. Einfalt en áhrifaríkt.

Annað kvöld mætir hún öðrum Ólympíuverðlaunahafa í Sara McMann. Þetta verður í fyrsta skipti í sögu UFC þar sem tveir Ólympíuverðlaunahafar mætast í átthyrningnum en McMann hlaut silfur í frjálsri glímu (e. freestyle wrestling) á Ólympíuleikunum 2004. Þess ber þó að geta að getustigið í júdó kvenna er hærra en getustigið í frjálsri glímu kvenna og því almennt talið meira afrek hjá Rousey heldur en McMann. McMann er ósigruð í 7 bardögum og mætir sínum allra sterkasta andstæðingi hingað til. Þarna takast á tveir ólíkir stílar, júdóstíll Ronda Rousey og glímustíll Sara McMann.

Þegar Ronda Rousey kom fyrst fram á sjónarsviðið virtist hún góð og kurteis stelpa sem almenningi líkaði vel við. Álit hennar hefur tekið stakkaskiptum eftir að hún var þjálfari í raunveruleikaþættinum The Ultimate Fighter. Baulað var á hana þegar hún gekk í búrið í síðasta bardaga sínum og ekki skánaði það þegar hún neitaði að taka í hönd andstæðing síns, Miesha Tate, eftir sigur sinn. Rousey hefur gaman að því að vera í hlutverki vondu stelpunnar og fyllist orku þegar hún heyrir áhorfendur baula á hana. Fólk elskar að hata hana og vonast margir eftir sigri McMann.

Daniel Cormier (13-0) vs. Patrick Cummins (4-0) - léttþungavigt

Daniel Cormier berst annað kvöld í fyrsta sinn í léttþungavigt en hann hefur hingað til barist í þungavigt. Cormier keppti í glímu á Ólympíuleikunum 2004 þar sem hann endaði í 4. sæti. Fyrir Ólympíuleikana 2008 spáðu margir því að Cormier gæti tekið gullið en Cormier glímdi ekki eina einustu glímu á leikunum. Hann var að skera óhóflega niður fyrir -96 kg flokkinn sem leiddi til nýrnabilunar. Þetta var afleiðing af illa skipulögðum niðurskurði og var mikið áfall í glímuheiminum. Eftir að hann færði sig yfir í MMA hefur hann verið afar farsæll og er enn ósigraður.

Patrick Cummins er nýliði í UFC og er aðeins með fjóra atvinnumannabardaga að baki. Hann er góður glímumaður og hlaut til að mynda tvisvar "All-American" (á topp 8 í sínum þyngdarflokki á landsvísu) nafnbótina í bandarísku háskólaglímunni. Cummins vill meina að enginn þori að berjast við hann og þess vegna sé hann einungis með fjóra bardaga að baki. Sagan segir að yfir 40 andstæðingar hafi bakkað úr bardaga gegn honum.

Fyrir aðeins 10 dögum síðan átti Daniel Cormier að berjast gegn Rashad Evans og Cummins var að vinna á kaffihúsi. Evans meiddist hins vegar og steig Patrick Cummins upp. Cummins var á vakt í kaffihúsinu þegar hann fékk símtalið frá Dana White, forseta UFC, og var boðið að berjast gegn Cormier. Cummins var ekki lengi að segja já við White og hóf að segja sögur af því þegar hann sigraði Cormier í glímu og lét hann fara að gráta. Hann var á endanum rekinn af kaffihúsinu þar sem hann var í símanum (við White) á meðan hann átti að vera að afgreiða. Cummins fékk samning við UFC þrátt fyrir að hafa aðeins fjóra bardaga að baki og fær nú stærsta tækifæri lífs síns á laugardaginn. Sigri Cummins Ólympíufarann Cormier væru það einhver óvæntustu úrslit í sögu MMA og algjört Rocky augnablik!

Daniel Cormier kastar Josh Barnett.Vísir/Getty
Rory MacDonald (15-2) vs. Demian Maia (18-5) - veltivigt

Þegar Rory MacDonald kom fyrst fram á sjónvarsviðið spáðu margir því að hann ætti eftir að verða meistari innan fárra ára. Leiðinleg frammistaða gegn Jake Ellenberger og tap gegn Robbie Lawler hefur minnkað allt slíkt tal. Eftir að liðsfélagi hans, meistarinn George St. Pierre, yfirgaf veltivigtina getur MacDonald gert atlögu að titlinum fyrir alvöru en fyrst þarf hann að fara í gegnum Demian Maia.

Demian Maia er einn besti gólfglímumaður veraldar. Maia sigraði ADCC, stærsta glímumót heims, árið 2007 og var í 2. sæti árið 2005 auk þess að vera margfaldur heimsmeistari í BJJ. Eftir misjafnt gengi í millivigtinni færði hann sig niður í veltivigtina. Þar mætti hann endurnærður og einbeitti sér að því sem hann gerir best, að taka menn niður og hengja þá.

Þetta verður hörku bardagi í erfiðasta þyngdarflokki UFC, veltivigtinni.

Mike Pyle (25-9-1) vs. TJ Waldburger (16-8) - veltivigt

Mike Pyle átti að berjast við Gunnar Nelson í maí í fyrra áður en okkar maður meiddist. Hann kemur nú til baka eftir fyrsta tapið hans í þrjú ár og mætir BJJ brúnbeltingnum TJ Waldburger en 13 af 16 sigrum hans hafa komið eftir uppgjafartak.

Stephen Thompson (8-1) vs. Robert Whittaker (11-3) - veltivigt

Þegar Stephen Thompson rotaði Dan Stittgen með hásparki í febrúar 2012 ætlaði allt um koll að keyra á netheimum. Sparkið þótti glæsilegt og voru væntingarnar gríðarlegar til hans. Eftir tap gegn Matt Brown minnkaði athyglin talsvert og hefur hann hálf gleymst í veltivigtinni. Robert Whittaker sigraði TUF: The Smashes raunveruleikaseríuna (Ástralía vs. Bretland) og hefur litið ágætlega út í þremur UFC bardögum. Hann er með skemmtilegan box stíl og notar stunguna mikið. Þó Stephen “Wonderboy” Thompson sé orðinn 31 árs eru enn einhverjir sem vonast eftir að þessi karate strákur springi út. Þrátt fyrir að Whittaker sé einnig með svart belti í karate er hann með box stíl og verður gaman að sjá þessa tvo ólíku stíla mætast.

Útsendingin hefst kl 3 aðfaranótt sunnudags og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Vísir og MMA fréttir hafa tekið höndum saman í umfjöllun um MMA. Pétur Marinó er ritstjóri MMA frétta og birtir fréttir úr MMA heiminum á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×