Fótbolti

Freyr: Verða leikmenn sem fá nýtt og stærra hlutverk

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Það var létt yfir mannskapnum. Flestir að fara á gras í fyrsta skipti í langan tíma sem er gaman. Flestir leikmenn eru vel stemmdir og vel undirbúnir,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, eftir fyrstu æfingu liðsins á Algarve í dag.

Stelpurnar hefja leik á Algarve-mótinu á morgun þegar liðið mætir Evrópumeisturum Þýskalands en nokkur þreyta var í liðinu á fyrri æfingu dagsins.

„Það var smá þreyta eftir langt ferðalag en síðustu leikmenn voru að skila sér undir miðnætti. Við tökum þennan dag í að hreinsa það og á sama tíma undirbúa okkur fyrir leikinn á móti Þýskalandi.“

„Þetta er ekki mikill tími en bara það sem er í boði. Það er bara jákvæður andi í hópnum og enginn bent á að þetta sé eitthvað vandamál,“ sagði Freyr sem er óttalaus fyrir erfitt verkefni á morgun.

„Engin hræðsla. Við lítum á þetta sem ákveðið verkefni fyrir okkur að vinna í lápressu með nýjum áheyrslum. Við erum búnir að eyða orku í það með leikmennina heima og svo núna í dag að fara yfir þá leikfræði. Svo sjáum við hvernig það kemur út gegn jafnsterku liði og Þýskaland er. Það verða leikmenn sem fá nýtt hlutverk og stærra hlutverk en þeir hafa fengið áður.“

Allt viðtalið sem tekið var af HilmariÞórGuðmundssyni, starfsmanni KSÍ, á Algarve má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×