Körfubolti

Gunnhildur ein á móti restinni af fjölskyldunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Gunnarsdóttir og Bjarni Magnússon þjálfari Hauka.
Gunnhildur Gunnarsdóttir og Bjarni Magnússon þjálfari Hauka. Vísir/Valli
Haukakonan Gunnhildur Gunnarsdóttir er í afar sérstakri stöðu í lokaúrslitum Dominos-deildar kvenna í körfubolta sem hefjast í Stykkishólmi í kvöld. Hún er ekki bara að keppa á móti Snæfelli heldur í raun allri fjölskyldunni.

Systir hennar, Berglind, er leikmaður Snæfells, faðir hennar, Gunnar Svanlaugsson, er formaður Kd. Snæfells, og öll fjölskyldan er miklir Hólmarar. „Bikararnir verða í fjölskyldunni sama hvernig þetta endar,“ segir Gunnhildur létt.

„Þetta er mjög erfitt og ég get alveg viðurkennt það. Það er samt sérstaklega erfitt að sjá níræðan afa sinn sitja hinum megin í stúkunni eða fara á gamla heimavöllinn sinn því Snæfellshjartað slær þarna einhvers staðar undir. Ég er hins vegar að spila fyrir Haukana núna,“ segir Gunnhildur sem hefur spilað þar síðan haustið 2010. Hún er nú komin með reynslu af að mæta Snæfelli. „Þetta er alls ekki jafnerfitt og á fyrsta árinu því það var skelfilegt,“ segir Gunnhildur.

Snæfell er í lokaúrslitunum í fyrsta sinn en Gunnhildur var á sama stað með Haukunum fyrir tveimur árum. „Ég veit hvað það er að tapa í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn og það er ekki möguleiki að það gerist aftur núna,“ segir Gunnhildur ákveðin.

Lele Hardy hefur verið frábær með Haukunum í vetur og athyglin hefur verið mikið á henni. „Lele er náttúrulega frábær leikmaður en við sýndum það í seríunni á móti Keflavík að við erum ekki eins manns lið. Það er búið að sýna sig að ef við leggjum allar eitthvað í púkkið þá vinnum við eins og við gerðum bæði í bikarúrslitunum og í seríunni á móti Keflavík,“ segir Gunnhildur.

Gunnhildur er þegar búin að fagna sigri á móti „fjölskyldunni“ því Haukar unnu Snæfell í bikarúrslitaleiknum sem er eini sigur Hauka á Snæfelli í vetur. „Þau samglöddust mér alveg og tóku kannski bara bikarúrslitadaginn til að jafna sig og svo var þetta vara búið. Ég fagnaði aftur á móti fram eftir öllu,“ segir Gunnhildur.

Gunnhildur Gunnarsdóttir hefur átt fínt tímabil með Haukunum en hún er með 9,6 stig og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Fyrsti leikur Snæfells og Hauka hefst klukkan 18.00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×