Körfubolti

Stærðin skiptir ekki máli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson í baráttunni við Martin Hermannsson.
Jón Axel Guðmundsson í baráttunni við Martin Hermannsson. Vísir/Stefán
Á morgun mætast KR og Grindavík í þriðja leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. KR vann fyrsta leikinn á heimavelli með níu stigum, 93-84, en Grindvíkingar svöruðu fyrir sig með 79-76 sigri í Röstinni.

Eitt af því sem vakti athygli í leik tvö á föstudaginn var hversu vel Grindvíkingum gekk þegar þeir voru með lágvaxið lið inn á vellinum, þ.e.a.s. ekki með báða stóru menninna sína, Ómar Örn Sævarsson og Sigurð Gunnar Þorsteinsson, inn á í einu

Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af 3. leikhluta tók Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, Sigurð út af og setti Daníel Guðna Guðmundsson inn á í hans stað. Á þeim tíma var KR tólf stigum yfir, 43-55.

Grindvíkingar náðu að minnka muninn í sex stig, 49-55, áður en 3. leikhluti var allur og tóku síðan völdin í lokaleikhlutanum sem þeir unnu 30-21. Sigurður kom ekki meira við sögu í leiknum, en Grindvíkingar unnu síðustu tólf mínútur leiksins án hans með 15 stigum.

Sé litið á +/- tölfræðina úr leiknum, þá voru Grindvíkingar +13 þegar þeir Ómar, Daníel, Jón Axel Guðmundsson, Ólafur Ólafsson og Earnest Lewis Clinch Jr. voru saman inn á vellinum. Sama uppstilling, nema með Jóhann Árna Ólafsson í stað Ólafs, var næstbesta" uppstilling Grindvíkinga í leiknum, en hún var +4.

Í fyrsta leiknum gekk Grindvíkingum líka best þegar þeir voru bara með einn stóran mann inn á vellinum. Uppstillingin: Daníel, Clinch, Ólafur, Jóhann og Sigurður var +9 í leiknum í DHL-höllinni, hæst allra uppstillinga Grindavíkur.

Sé hins vegar litið á tímabilið í heild, þá hafa þessar "litlu" uppstillingar ekki skilað miklu. Uppstillingin: Jóhann, Daníel, Clinch, Jón Axel og Ómar var -14 í vetur og Jóhann, Jón Axel, Þorleifur Ólafsson, Sigurður og Clinch var -11 og Jóhann, Jón Axel, Clinch, Ólafur og Sigurður var -10. "Besta" uppstilling Grindvíkinga á tímabilinu (+93) inniheldur báða stóru menninna, Sigurð og Ómar, auk Clinch, Jóhanns og Ólafs.

Það verður því fróðlegt að sjá hvað Sverrir Þór Sverrisson gerir í leiknum á morgun; hversu margar mínútur hann gefur "litlu" liðunum, sem hafa verið að virka svo vel í einvíginu gegn KR.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×