Íslenski boltinn

Freyr: Okkar að taka af þeim bílstjórasætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta fær erfitt verkefni í næstu viku þegar liðið mætir toppliði Sviss á útivelli. Landsliðsþjálfarinn hefur trú á íslenskum sigri og að liðið geti blandað sér með því í baráttuna um efsta sætið í riðlinum.

„Þær eru í bílstjórasætinu en það er okkar að snúa því við og við getum gert það með því að vinna í Sviss," sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta í samtali við Ríkharð Óskar Guðnason en Freyr tilkynnti hópinn í dag fyrir leik á móti Sviss í undankeppni HM.

„Ég trúi því að ef allt gengur upp hjá okkur, bæði hvað varðar leikfræði og að okkar leikmenn komi þokkalega heilar til móts við liðið, þá eigum við góða möguleika á því að ná í þrjú stig í Sviss," sagði Freyr.

Sviss hefur náð 16 stigum út úr fyrstu sex leikjum sínum en íslenska liðið er með níu stig eftir fjóra leiki. Íslensku stelpurnar hefur aðeins tapað einum leik í undankeppninni til þessa og það var í fyrri leiknum á móti Sviss á Laugardalsvellinum.

„Við þurfum náttúrulega að skora mörk til þess að vinna og við munum sækja og halda áfram að spila þennan leik sem við höfum verið að spila upp á síðkastið. Við sköpum okkur alltaf færi og munum reyna að pressa þær á réttum tímum og reyna að nýta okkur veikleika andstæðinganna. Við förum allavega út til að sækja þrjú stig, " sagði Freyr en það er hægt að sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.






Tengdar fréttir

Tvær breytingar á landsliðshópi Freys

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, tilkynnti í morgun 20 manna landsliðshóp fyrir leikinn gegn Sviss í undankeppni HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×