Körfubolti

"Hvað í fjandanum hefur Steve Kerr gert til að vera álitinn gulldrengur?“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stephen A. Smith, bandarískur blaða- og sjónvarpsmaður, hélt þrumuræðu um SteveKerr, fyrrverandi NBA-meistara með Chicago Bulls, í umræðuþættinum First Take á íþróttasjónvarpsstöðinni ESPN í gær.

Hann er vægast sagt ósáttur við að Kerr komi til greina sem þjálfari New York Knicks en talið er að Phil Jackson, nýr forseti Knicks, vilji fá sinn gamla lærisvein til starfa.

Kerr hefur aldrei þjálfað körfuboltalið en hann varð meistari með Chicago Bulls sem fyrr segir auk þess sem hann stóð sig vel sem framkvæmdastjóri Phoenix Suns.

„Það sem mér er sagt af þeim sem mönnum sem ég hef talað við á mínum 18 árum að fjalla um deildina þá er Kerr ekki bara líklegur sem næsti þjálfari Knicks. Hann gæti einnig mögulega fengið Lakers-starfið ef hann vill það virkilega og ef hann hefur áhuga á Golden State mun félagið reka Mark Jackson til að fá hann,“ sagði Smith.

Svo fór að Golden State rak Mark Jackson eins og greint var frá í gær en Kerr hefur í það minnsta ekki ennþá verið ráðinn til starfa þar.

„Ég spyr aftur: Hvað í fjandanum hefur Steve Kerr gert til að koma til greina sem þjálfari á tveimur af stærstu markaðssvæðum Bandaríkjanna? Ég skil þetta ekki. Maðurinn hefur aldrei þjálfað en er samt álitinn einhver gulldrengur. Þið verðið að fyrirgefa mér, við verðum bara að sitja hérna aðeins áfram þó þetta sé óþægilegt.  Vitið þið um einhverja svarta menn sem þetta hefur komið fyrir? Já, ég sagði það. Svarta!“

Þessa þrumuræðu Stephens A. Smiths má sjá í spilaranum hér fyrir ofan en félagi hans í þættinum, Skip Bayless, tók undir orð Smiths. Honum finnst þó eðlilegt að Phil Jackson vilji fá „sinn mann“ á bekkinn hjá liðinu næsta vetur.

NBA

Tengdar fréttir

Phil Jackson búinn að reka Woodson

Phil Jackson, forseti New York Knicks í NBA-körfuboltanum, tók sína fyrstu stóru ákvörðun í starfinu í dag þegar hann tók sig til og rak allt þjálfaralið félagsins. Þetta kemur fram í bandarískum fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×