Körfubolti

Justin áfram með Stjörnunni - fjórir lykilmenn framlengja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse.
Justin Shouse. Vísir/Getty
Stjörnumenn hafa gengið frá samningum við fjóra öfluga leikmenn fyrir komandi tímabil í Dominos-deild karla í körfubolta og virðist ætla að halda saman kjarna liðsins frá því á síðasta tímabili. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá körfuknattleiksdeild Stjörnunnar.

Dagur Kár Jónsson, Jón Sverrisson, Justin Shouse og Marvin Valdimarsson hafa allir framlengt samninga sína við Stjörnuna.

"Dagur, Justin og Marvin hafa verið hluti af kjarna meistaraflokks síðustu árin og því mikil ánægja að þeir skulu framlengja samninga sína við félagið. Þessir þrír eru líka leikjahæstu virku leikmenn Stjörnunnar, en Justin hefur leikið 207 leiki fyrir Stjörnuna, Marvin 145 og Dagur Kár 128," segir í fréttatilkynningu frá Stjörnunni.

Jón Sverrisson stimplaði sig inn hjá Stjörnuliðinu á síðustu leiktíð en hann kom þá mjög sterkur inn eftir afar erfið meiðsli. Jón er mikill baráttukarl sem skilaði mörgum fráköstum og körfum í kringum körfuna á síðustu leiktíð.

Önnur félög höfðu sýnt bakverðinum skemmtilega Justin Shouse mikinn áhuga en hann ætlar að spila áfram með Stjörnuliðinu eins og hann hefur gert frá haustinu 2008. Justin hefur verið með íslenskt vegabréf frá því í júní 2011.

Hrafn Kristjánsson þjálfar karlalið Stjörnunnar eins og áður hefur komið fram en þá hefur félagið einnig ráðið Sævald Bjarnason sem þjálfara kvennaliðsins sem leikur í 1. deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×