Körfubolti

Finnarnir þjálfa KR

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Finnur við undirritunina.
Finnur við undirritunina. Mynd/Heimasíða KR
Finnur Jónsson var í dag ráðinn sem þjálfari meistaraflokks kvenna í körfubolta í KR. Finnur tekur við af Yngva Gunnlaugssyni og skrifaði undir til tveggja ára.

Það verða því nafnar sem sjá um meistaraflokka klúbbsins en Finnur Freyr Stefánsson þjálfaði meistaraflokk karla hjá KR síðastliðinn vetur.

Finnur Freyr náði árangri strax á fyrsta tímabili er KR hampaði Íslandsmeistaratitlinum eftir að hafa sigrað Grindavík í úrslitaeinvíginu.

Finnur Jónsson hefur fengist við þjálfun hjá Skallagrími undanfarin 10 ár þar sem hann hefur verið yfirþjálfari yngri flokka, aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í þrjú ár og þjálfari meistaraflokks kvenna í fjögur ár.

Finnur hefur einnig sinnt unglingalandsliðum Íslands en hann þjálfaði á síðasta ári U15 árs landslið kvenna sem vann Copenhagen International og sinnir í dag starfi aðalþjálfar U18 árs landsliðs kvenna.

„Við erum gríðarlega ánægð að fá Finn til okkar og bjóðum hann hjartanlega velkominn í KR. Það er spennandi tímabil framundan og við sjáum fram á bjarta tíma í kvennakörfunni hjá KR,“ sagði Guðrún Kristmundsdóttir, formaður körfuknattleiksdeildar KR við heimasíðu KR eftir undirritun samningsins.

 

Yngvi mun á næstunni einbeita sér að einbeita sér að yngri flokkum félagsins ásamt því að sinna uppbyggingu kvennastarfsins hjá KR.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×