Aníta Hinriksdóttir verður á fjórðu braut í úrslitahlaupinu í 800 m hlaupi á HM U-19 ára í Eugene í Oregon-fylki Bandaríkjanna.
Aníta komst í úrslit í gær á sjötta besta tíma undanúrslitanna en var langt frá sínu besta. Aðeins einn keppandi í úrslitahlaupinu á betri tíma en Aníta á ferlinum en það er hin kúberska Sahily Diago.
Diago á best 1:57,74 mínútur en Íslandsmet Anítu í greininni er 2:00,49 mínútur. Aníta á best í ár 2:01,81 mínútur en það er á svipuðu reiki og bestu tímar þeirra Zeytuna Mohammed frá Eþíópíu (5. braut) og hinni áströlsku Georgia Wassall (6. braut).
Keppni í úrslitahlaupinu hefst klukkan 03.00 í nótt og það er ljóst að ef Aníta nær sér á strik mun hún eiga góðan möguleika á verðlaunasæti.
Þrír aðrir íslenskir keppendur hefja leik á HM í Eugene í dag. Hilmar Örn Jónsson keppir í sleggjukasti og er 5. í kaströð í A-riðli. Keppni hefst klukkan 17.30.
Þá keppa þeir Jóhann Björn Sigurbjörnsson og Kolbeinn Höður Gunnarsson í 200 m hlaupi. Kolbeinn er á 5. braut í 4. riðli sem hefst klukkan 18.03 og Jóhann Björn í 8. riðli á 6. braut sem hefst klukkan 18.27.
