Íslenski boltinn

Hjörtur með mikilvæg mörk fyrir Skagamenn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjörtur Júlíus Hjartarson.
Hjörtur Júlíus Hjartarson. Vísir/Valli
Hjörtur Júlíus Hjartarson er búinn að finna skotskóna á ný og hann sá til þess að Skagamönnum lönduðu öllum þremur stigunum í kvöld eftir 3-1 heimasigur á hans gömlu félögum í Þrótti. Hjörtur Júlíus skoraði tvö af mörkum Skagamanna sem lentu undir snemma leiks.

Skagamenn eru áfram sex stigum á eftir toppliði Leiknis úr Reykjavík en náðu með þessum sigri fimm stiga forskoti á HK sem er í 3. sætinu. Þróttarar áttu möguleika á að jafna Skagamenn að stigum með sigri.

Hjörtur skoraði ekki mark í sjö leikjum sínum í fyrstu þrettán umferðum deildarinnar en hefur nú skorað í tveimur leikjum Skagamanna í röð og samtals þrjú mörk.

Alexander Veigar Þórarinsson  kom Þrótti í 1-0 á 12. mínútu leiksins en Hjörtur svaraði með tveimur mörkum fyrir hálfleik. Hjörtur skoraði fyrra markið sitt á 17. mínútu og það síðara á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Fyrsta mark Hjartar í sumar kom í 3-1 sigri ÍA á Víkingi Ólafsvík í síðustu umferð en hingað til í sumar hafa Skagamenn treyst á Garðar Bergmann Gunnlaugsson í markaskorun en Garðar skoraði 13 mörk í fyrstu 13 leikjum sínum í sumar.

Hjörtur Júlíus skoraði 15 mörk í 19 leikjum fyrir ÍA þegar Skagamenn komust síðast upp úr 1. deildinni sumarið 2011.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×