Fótbolti

Halmstads komst úr fallsæti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristinn og félagar unnu mikilvægan sigur í dag.
Kristinn og félagar unnu mikilvægan sigur í dag. Facebook-síða Halmstads
Þrír leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Kristinn Steindórsson lék allan leikinn þegar Halmstads vann dramatískan sigur á Örebro á útivelli.

Heimamenn komust yfir með sjálfsmarki á 25. mínútu og þannig stóðu leikar allt fram á 77. mínútu þegar Mikael Boman jafnaði metin fyrir Halmstads.

Það var síðan Eric Smith sem skoraði sigurmark Halmstads á fyrstu mínútu uppbótartíma.

Með sigrinum komst Halmstad úr fallsæti, en liðið situr nú í 12. sæti (af 16 liðum).

Falkenbergs FF, lið Halldórs Orra Björnssonar, mátti þola 1-4 tap fyrir toppliði Malmö á heimavelli.

Leikurinn byrjaði vel fyrir heimamenn, en Godsway Donyoh kom þeim yfir á 13. mínútu.

Það reyndist þó skammgóður vermir, en Agon Mehmeti jafnaði metin á 24. mínútu og skoraði svo sitt annað mark tólf mínútum seinna.

Markus Rosenberg og Emil Forsberg bættu svo við mörkum fyrir Malmö í seinni hálfleik. Lokastaðan 1-4, Malmö í vil, en liðið er með níu stiga forystu á toppi deildarinnar.

Halldór sat allan tímann á varamannabekk Falkenbergs sem féll niður í 11. sæti með tapinu.

Þá gerðu IFK Norrköping og BK Häcken markalaust jafntefli á Nya Parken í Norrköping.

Arnór Ingvi Traustason lék fyrstu 74 mínútur leiksins fyrir heimamenn, en Gunnar Heiðar Þorvaldsson kom inn á sem varamaður á 60. mínútu hjá gestunum.

Häcken situr í öðru sæti deildarinnar, en Norrköping í því níunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×