Innlent

Vill svör um hvað lögreglan vissi um komu Mark Kennedy til landsins

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Mark Kennedy starfaði sem flugumaður á meðal umhverfissinna. Hann mótmælti við Kárahnjúkavirkjun.
Mark Kennedy starfaði sem flugumaður á meðal umhverfissinna. Hann mótmælti við Kárahnjúkavirkjun.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vill vita hvort að stjórnvöldum hafi með einhverjum hætti verið upplýst um komu flugumanns bresku lögreglunnar, Mark Kennedy, til landsins. Ef svo er vill hann vita hvernig og við hvaða tilefni þessum upplýsingum hafi verið komið á framfæri.

Vill vita um lögmætið

Þetta er meðal spurninga sem Össur hefur lagt fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra á þingi. Hann spyr einnig hvort að lögregla eða önnur stjórnvöld hafi haft upplýsingar um að lögreglumaðurinn, Kennedy, dveldi eða hefði dvalið á Ísland.

Össur vill líka svör um hvort lögreglan hafi fengið upplýsingar um íslenska aðgerðarsinna og aðgerðir sem aflað hafði verið af Kennedy árið 2005. Veltir hann því líka upp hvort að upplýsingaöflun hans hafi verið lögmæt og hvort að hann hafi starfað með heimild stjórnvalda.

Mótmælti við Kárahnjúka

Kennedy gekk í hóp aðgerðasinna í Bretlandi í kringum árið 2000 en ferðaðist síðan með umhverfissinnum um heiminn til að mótmæla hverskyns stóriðju. Hann var meðal mótmælenda við Kárahnjúkavirkjun.

Í skýrslu sem ríkislögreglustjóri skilaði þáverandi ráðherra dómsmála árið 2011 kemur fram að ekki hafi komið fram upplýsingar í athugun lögreglu sem gera kleift að skera úr um hvort þessi flugumaður bresku lögreglunnar hafi verið hér á landi í samvinnu eða með vitund lögreglunnar árið 2005, eins og það var orðað í skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×