Viðskipti innlent

Útgerðarmenn á nálum yfir hugsanlegu viðskiptabanni

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Kolbeinn segir að útgerðarmenn, eins og allir aðrir sem stundi viðskipti, vilji ekki hafa öll eggin í sömu körfunni.
Kolbeinn segir að útgerðarmenn, eins og allir aðrir sem stundi viðskipti, vilji ekki hafa öll eggin í sömu körfunni. Vísir / Stefán
Titringur er meðal útvegsmanna vegna viðskiptaþvingana Rússa gagnvart evrópskum ríkjum. Þvinganirnar hafa ekki náð til Íslands en vaxandi ótti er innan stéttarinnar um að innflutningsbannið, sem gildir gagnvart flestum Evrópuríkjum, muni vera fært yfir Ísland á næstunni. Hafin er vinnan innan greinarinnar að finna nýja markaði ef til þess komi að Rússar loki dyrunum.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra boðaði hagsmunaaðila í sjávarútvegi á fund í gær til þess að skýra út fyrir útgerðarmönnum hvernig staðan blasti við stjórnvöldum. „Utanríkisráðherra var að fara yfir það með mönnum hvernig þetta horfði við þeim og hvaða fréttir þeir hafa úr sendiráðunum og svoleiðis,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍU, um fundinn.

Kolbeinn segir að engar kröfur eða tillögur hafi verið lagðar fram af hálfu LÍÚ á fundinum; samtökin skipti sér ekki af milliríkjadeilum. „Við erum ekki að skipta okkur af heimspólitíkinni,“ segir hann.

Staðan sé þó með þeim hætti að aðilar í sjávarútvegi séu uggandi yfir stöðunni og áhrif hennar á viðskiptasambönd við mikilvægan markað. „Það skapar það að menn eru stressaðir og órólegir með sín viðskiptasambönd, bæði Rússlandsmegin og hérna megin,“ segir hann.

Óöryggið hefur orðið þess valdandi að byrjað er að skoða hvaða aðrir markaðir eru mögulegir til að taka við af þeim rússneska, komi til viðskiptaþvingana. „Ef að þetta gerist þurfum við að geta farið með þetta eitthvað annað og eðlilega fara menn að skoða aðra möguleika,“ segir hann. „Að sjálfsögðu, eins og í öllum öðrum „business“, reyna menn að hafa eggin í fleiri en einni körfu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×