Fótbolti

Elmar skoraði er Randers lyfti sér upp í annað sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elmar kom Randers í 2-1.
Elmar kom Randers í 2-1. Heimasíða Randers
Landsliðsmaðurinn Theodór Elmar Bjarnason skoraði eitt marka Randers í 3-2 sigri á Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld, en þetta var þriðja mark hans í deildinni á tímabilinu. Með sigrinum komst Randers upp í annað sæti deildarinnar með 24 stig, tíu stigum á eftir forystusauðunum í Midtjylland.

Martin Pusic kom Esbjerg yfir strax á 2. mínútu, en Mikael Ishak jafnaði metin á þeirri 15. Fimm mínútum síðar kom Elmar Randers yfir og þannig var staðan fram á 57. mínútu þegar Viktor Lundberg jók muninn í 3-1. Pusic lagaði stöðuna á 79. mínútu en nær komust Esbjerg-menn ekki.

Elmar lék allan leikinn fyrir Randers en Ögmundur Kristinsson sat allan tímann á bekknum. Markvörðurinn hefur leikið tvo leiki á tímabilinu til þessa og haldið hreinu í þeim báðum.

Elmar og Ögmundur eru báðir í íslenska landsliðinu sem mætir Belgíu og Tékklandi í næstu viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×