Innlent

Össur um Sigmund: „Sýndi hroka og lítilsvirðingu gagnvart þinginu“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigmundur fékk ekki hlýjar kveðjur á Alþingi.
Sigmundur fékk ekki hlýjar kveðjur á Alþingi. Vísir
Helgi Hjörvar, Helgi Hrafn Gunnarsson, Róbert Marshall, Svandís Svavarsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Katrín Júlíusdóttir og Katrín Jakobsdóttir stigu öll í pontu í morgun til að ræða fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í umræðum um skýrslu hans sjálfs um skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Einar K. Guðfinnsson, forseti þingsins, tilkynnti í gær að Sigmundur Davíð hefði þurft að hlaupa á mikilvægan fund. Umræðunni var frestað í kjölfarið af því að forsætisráðherrann lét sig hverfa úr þinghúsinu. Nokkrir þingmannana hrósuðu honum fyrir að fresta umræðunum en þeir voru allir sammála um að óeðlilegt hefði verið að hafa umræðu um málið án þess að hann væri sjálfur viðstaddur umræðuna.

„Þetta sýndi hroka og lítilsvirðingu gagnvart þinginu sem enginn á að líða,“ sagði Össur sem spurði líka að því hvaða fundur væri mikilvægari en fundur með Alþingi um stærsta mál stjórnarinnar. Undir þá spurningu tók Helgi. „Hvaða fundur getur verið mikilvægari fyrir forsætisráðherra en fundur í þjóðþinginu um stærsta kosningaloforð hans,“ spurði hann.

Katrín Jakobsdóttir velti því upp hvort ástæða væri til að forsætisnefnd tæki málið fyrir og kallaði hann á fund til að fá skýringar á framgöngu hans gagnvart Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×