Hér að neðan má sjá staðsetningu allra skráðra sendiráða á Íslandi. Bláu punktarnir tákna þau sendiráð sem eru í eigu erlendra ríkja. Appelsínugulu punktarnir tákna sendiráð sem eru í leiguhúsnæði, eða þá að upplýsingar liggja ekki fyrir.
Húsnæði bandaríska sendiráðsins við Laufásveg er líklega þekktasta sendiráð erlends ríkis hér á landi. Það er metið á 128 milljónir samkvæmt fasteignamati, en brunabótamat er 185 milljónir króna.
Alls eru 14 ríki með skráð sendiráð hér á landi, eins og kemur fram í gögnum Utanríkisráðuneytisins. Auk ríkjanna 14 er Evrópusambandið með sendiráð hér á landi. Einnig eru nokkrar aðalræðisskrifstofur, til dæmis halda Ítalir og Hollendingar úti slíkum skrifstofum.
Af ríkjunum fjórtán sem eru með sendiráð hér á landi eru átta þeirra í húsnæði sem ríkin eiga sjálf, samkvæmt fasteignaskrá. Hér að ofan má sjá staðsetningu allra sendiráða á Íslandi og með því að færa bendilinn yfir punktana sem tákna sendiráðin má sjá fasteignamat og brunabótamat hvers húsnæðis, þar sem þær upplýsingar liggja fyrir. Sum sendiráðanna eru í leiguhúsnæði og er verðmæti þess hluta húsnæðis sem sendiráðin leigja ekki sérstaklega tilgreindur hjá fasteignaskrá.
Árið 2010 sagði Vísir frá því að kínverska sendiráðið hefði fest kaup á húsnæði við Skúlagötu 51, sem síðar varð Bríetartún. Húsnæðið er tæplega 4200 fermetrar og keyptu Kínverjar húsið af félaginu 2007 ehf.