Menning

Þetta er mjög krefjandi ganga

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Maður finnur sér alltaf eitthvað að gera,“ segir María, sem fyrir utan að leika stórt hlutverk í Gullna hliðinu undirbýr nýtt uppistand með Pörupiltum.
„Maður finnur sér alltaf eitthvað að gera,“ segir María, sem fyrir utan að leika stórt hlutverk í Gullna hliðinu undirbýr nýtt uppistand með Pörupiltum. Mynd/Auðunn
Þótt María Pálsdóttir ætti sér leyndan draum um að verða leikkona þorði hún ekki að leika í menntaskóla. En draumurinn rættist og nú leikur hún eitt aðalhlutverk íslenskra leikbókmennta, kerlinguna í Gullna hliðinu, með Leikfélagi Akureyrar.

Þegar hringt er í Maríu svarar hún símanum í Reykhúsum í Eyjafirði. Ég hvái þegar ég heyri bæjarnafnið og dettur fyrst í hug hangikjöt og bjúgu en átta mig og spyr gáfulega: „Er jarðhiti þarna?“ „Já, já, þetta er samskonar nafngift og Reykjavík,“ svarar María og kveðst vera á æskuslóðum. „Ég fæddist reyndar fyrir sunnan en flutti eins árs með foreldrum mínum hingað í Reykhús sem eru í gamla Hrafnagilshreppnum, gekk í Hrafnagilsskóla fram til sextán ára aldurs og fór svo beint í MA.“

Gekk með veggjum

Eftir stúdentspróf kveðst María fyrst hafa farið að þvælast um heiminn og síðan stefnt að því að verða kennari. En það var á þeim árum sem hún var uppgötvuð. „Ég datt inn í leiklistina hálf óvænt. Var svo sem búin að láta mig dreyma og fékk mér einhvern tíma eyðublað fyrir umsókn í leiklistarskólann, fyllti það út en sendi aldrei. Gekk með veggjum í menntaskólanum og þorði ekki að taka þátt í leikstarfseminni. En í Kennó voru Guðný Helgadóttir og Guðlaug María Bjarnadóttir með skemmtilegt námskeið, þær kveiktu í mér og trúðu á mig svo það endaði með að ég sótti um í Leiklistarskólann og komst inn. Kláraði samt Kennó til vonar og vara síðar í fjarnámi þegar ég var í fæðingarorlofi.“

María er búsett í Mosfellsbæ, er hamingjusamlega gift Ólafi Ingimarssyni bæklunarskurðlækni og þau eiga þrjú börn, ellefu og sjö ára stráka, Úlf og Bessa, og dótturina Sigríði Birnu, fimm ára. En fjölskyldan hefur verið tvístruð frá því um miðjan nóvember, að undanskildum hátíðunum, því María hefur verið að æfa sig í að vera kerling fyrir norðan. Hún leikur hana nefnilega í afmælissýningu Leikfélags Akureyrar, Gullna hliðinu, sem frumsýnd var í gær og framundan eru sýningarhelgar, væntanlega fram yfir páska. Hún kveðst hafa tekið dótturina með norður, plantað henni í leikskóla á svæðinu og hún uni hag sínum hið besta. „Það gengur ótrúlega vel hjá þeim feðgum líka,“ segir hún. „Ég er svo heppin að eiga svona skilningsríka og frábæra fjölskyldu, allir hafa hjálpað til,“ bætir hún við.

Hugsandi yfir kerlingunni

En hvernig finnst Maríu að leika kerlingu, kornungri konunni? „Ég var nú aðeins hugsandi yfir því fyrst,“ viðurkennir hún. „Fannst ég heldur ung. En svo ef maður spáir í það þá var meðalaldur fólks áður fyrr ekkert ýkja hár. Konur voru útslitnar um fimmtugt og fólk almennt aðframkomið af vinnu og vosbúð þannig að ég hugsa að ég væri orðin kerling nú ef ég hefði verið uppi þá. Auðvitað hefur þetta oftast verið leikið af mun eldri leikkonum, nema þegar Hilmir Snær setti þetta verk upp um aldamótin síðustu. Þá lék Edda Heiðrún kerlinguna og var ábyggilega ekki eldri en ég er núna. Kerlingin má nú heldur ekki vera komin að fótum fram því hún þarf að klöngrast með sálina hans Jóns síns upp í mót um urð og grjót til að komast að gullna hliðinu. Egill Ingibergsson galdramaður sér um leikmynd og lýsingu og hann er búinn að gera alveg stórkostlega flotta klifurleið handa mér, baðstofugólfið fer bara upp í eitthvert þverhnípi og þetta er mjög krefjandi ganga. Ég er búin að vera bara í ókeypis líkamsrækt allt æfingatímabilið sem hefur staðið frá því um miðjan nóvember, nema hvað við fengum gott jólafrí.“

Er þetta klassísk uppfærsla á Gullna hliðinu?

„Það held ég geti seint talist. Samt er fallegt hvað Egill Heiðar leikstjóri er trúr hinum horfna heimi. Það er baðstofuloft og þar er verið að segja okkur sögu. Stúlkur úr hljómsveitinni Evu, þær Jóhanna Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasdóttir, sjá um músíkina og nota bæði tónlist úr verkinu og taka líka fleiri ljóð Davíðs Stefánssonar og semja ný lög við þau. Þær mynda frábæra umgjörð um verkið og segja okkur söguna um kerlinguna sem tekst á hendur mikið ferðalag, þegar maðurinn hennar hefur kvatt þetta líf. Egill hefur stytt verkið og snúið aðeins uppá það og það gæti komið einhverjum á óvart hvernig leikar skipast við hlið Lykla-Péturs.“

Stelpurnar á varamannabekk

Eins og fram hefur komið er María hagvön fyrir norðan og hlutverk kerlingarinnar er ekki það eina sem sést hefur til hennar á sviði þar. Fyrsta veturinn eftir útskrift úr Leiklistarskólanum lék hún með Leikfélagi Akureyrar, debúteraði í Klukkustrengjum eftir Jökul Jakobsson haustið 1999. Svo komu Blessuð jólin eftir Arnmund Ernst Backman og eftir áramót leikstýrði Viðar Eggertsson Tobacco Road þar sem María fékk að leika fátæka, holgóma stelpu sem átti dálítið bágt. „Þetta var skemmtilega fjölbreyttur vetur. Ég var samt ekki tilbúin að festa mig, þó ég hefði fengið fastráðningu hér, þannig að ég fór eftir þennan vetur til Finnlands í framhaldsnám í leiklist í sænskumælandi deild til að ná mér í masterspróf.“

Í kjölfar námsins í Finnlandi var María með í að stofna leikhópinn Subfrau ásamt öllum norrænu bekkjarsystrunum. Hann kom þrisvar til Íslands. „Þetta var kynjamiðaður hópur. Það var dálítið eldfimt ástand þarna í skólanum þegar ég kom. Stelpurnar búnar að fá upp í kok af karlaslagsíðunni í leikritum. Það var Hamlet og Pétur Gautur og það var þessi karlinn og hinn karlinn og þær fengu aldrei að láta ljós sitt skína. Svo tók steininn úr þegar leikstjóri mætti frá Litháen sem sagðist bara ekki geta unnið með konum, þær hefðu svo kynferðislega örvandi áhrif á hann. Við vorum því látnar sitja á varamannabekknum og hann lék sér úti á gólfi með strákunum. Um jól leist mér svo illa á þetta að ég var að hugsa um að hætta en eftir áramótin kom til okkar kona með dragnámskeið. Hún fann stemninguna í hópnum og hvatti okkur stelpurnar áfram, lét okkur leika hitt kynið, stúdera það og pæla í því og gaf okkur mikinn kraft. Það var gaman að leika stráka en jafnframt vorum við mjög fegnar að vera konur. Í kjölfarið stofnuðum við þennan leikhóp og hann starfaði í tíu ár en ég var ekki með í öllum sýningunum vegna anna og barneigna.“

Pörupiltar með kynfræðslu

Nú þarf María aðeins að fá frí frá símtólinu til að greiða úr flækju. Hár einnar barbídúkku á heimilinu er fast í hálsmeni dótturinnar, trú, von og kærleik. En mamma kann ráð við öllu.

Sagan af leikhópnum Subfrau og afrekum hans minnir á að María er einmitt í leikhópnum Pörupiltum, ásamt þeim Alexíu Björgu Jóhannesdóttur og Sólveigu Guðmundsdóttur. Pörupiltar hafa skemmt landsmönnum síðustu vetur með uppistandi í Þjóðleikhúskjallaranum við góðan orðstír. Þar kafa þeir ofan í samskipti kynjanna og skyggnast inn í karlmannssálina eins og einhvers staðar stendur á netinu. Þar kemur líka fram að sýningin endi í tómri vitleysu og slagsmálum. María gengst við þessu öllu. „Við vorum með sýningu sem hét HOMO ERECTUS og gekk mun lengur en við bjuggumst við í upphafi. Það endaði með að við fórum með hana í enskri þýðingu til Finnlands á leiklistarhátíð. Það var rosa gaman.“

Nú segir hún þær stöllur vera að hamast við að skrifa fyrir næsta uppistand sem verði um kynfræðslu fyrir tíunda bekk og frumsýnt í Borgarleikhúsinu 10. febrúar. „Þetta eru svo miklir vitleysingar þessir Pörupiltar og við keyrum á húmornum en viljum opna umræðu um þetta mikilvæga mál,“ segir hún. Það er sem sagt ekkert verið að slá af. „Nei, maður finnur sér alltaf eitthvað að gera.“

En aftur að Gullna hliðinu. María segir að stefni í góða aðsókn. „Mér skilst að miðar rjúki út,“ segir hún. „Höfundurinn, Davíð Stefánsson, var náttúrlega Eyfirðingur og þetta er eitt mest leikna leikrit Íslandssögunnar en nú eru nokkur ár sem það hefur legið í dvala, að minnsta kosti hjá stóru húsunum. Við megum ekki gleyma því sem við eigum og það var vel við hæfi að taka Gullna hliðið til sýningar á afmælisári bæði Davíðs og Leikfélags Akureyrar.“

Nokkur af verkefnum Maríu:

Kravattkontroll á leiklistarhátíð kvenna í Haparanda/Torneå

Slavar! hjá LA 

This is not my body í Berlin og í Borgarleikhúsinu með Subfrau

Svensexa för Dick með Subfra

Deildarstjóri fræðsludeildar Þjóðleikhússins 2004-2005

Ófríska konan í Eldhús eftir máli í Þjóðleikhúsinu (ófrísk að Bessa)

Dragnámskeið fyrir íslenskar leikkonur– Pörupiltar stofnaðir

Verkefnastjóri hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur 2007-2008

Halla í Halla og Kári hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu

Bláa gullið, trúðaleiksýning um vatn, sem sjálfstæður leikhópur skrifaði og lék í samstarfi við Borgarleikhúsið

Fíasól í Þjóðleikhúsinu

Homo Erectus, uppistand Pörupilta í Þjóðleikhúskjallaranum

Hermann hleypur – einleikur frumfluttur á Act alone á Suðureyri sumarið 2013






Fleiri fréttir

Sjá meira


×