Menning

Halda upp á happaskip

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þau leggja sitt af mörkum til bjargar Skaftfellingi, hjónin Eggert Þór og Þórunn Erlu Valdimarsdóttir.
Þau leggja sitt af mörkum til bjargar Skaftfellingi, hjónin Eggert Þór og Þórunn Erlu Valdimarsdóttir. Fréttablaðið/Valli
Meðal frummælenda á málþingi um skipið Skaftfelling í félagsheimilinu Leikskálum í Vík á morgun eru hjónin Eggert Þór Bernharðsson og Þórunn Erlu Valdimarsdóttir.



Eggert Þór ætlar að fjalla um menningarlegt gildi Skaftfellings og Þórunn að rifja upp magískt samstarf við ævisöguritun Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu sem bjargaði Skaftfellingi frá tortímingu.

„Ég var að ljúka við að skrifa erindið,“ segir Þórunn glaðlega þegar hún svarar í heimasímann.

„Var að reyna að draga upp mynd af Sigrúnu, þeirri stórmerkilegu konu sem áttræð lyfti Skaftfellingi með annarri hendi. Hún gaf andvirði einnar fínustu íbúðar Reykjavíkur til að hægt væri að bjarga skipinu. Sigrún var ekki rík en hún var alvöru kona.“

Á málþinginu verður formlega endurvakið áhugamannafélag um Skaftfelling sem Sigrún stofnaði árið 2000 og hafði það markmið að koma Skaftfellingi heim til Víkur og byggja um hann safn. Fyrra markmiðinu náði Sigrún sjálf en nú er komið að öðrum að ná því seinna.

Auk hjónanna Þórunnar og Eggerts eru Arnþór Helgason, Birna Hreiðarsdóttir, Björn G. Björnsson, Eiríkur Vilhelm Sigurðarson, Emil Þór Ragnarsson og Sigurður V. Sigurjónsson frummælendur á málþinginu og fundarstjóri er Ásgeir Magnússon sveitarstjóri. Í framhaldinu verður öllum gestum boðið að skoða Skaftfelling og Kötlusetur.

Skaftfellingur kom til landsins 1918 til vöruflutninga. Allir íbúar Skaftafellssýslnanna tveggja voru eigendur því að tæpast fannst svo fátækt vinnuhjú að það legði ekki fram að minnsta kosti eina krónu í stofnsjóð til smíðinnar. Nú bíður hann þess að vera gerður upp sem minnisvarði um merka sögu.

„Skaftfellingur er undir þaki en það hefur ekki verið neinn peningur til svo hægt sé að gera honum til góða. Auðvitað erum við soltin þjóð í menningargeiranum og það er verið að hella pening í skuldasúpur. En við sem höldum upp á Skaftfelling látum okkur þó dreyma um að setja að minnsta kosti á hann lítið stýrishús eins og var,“ segir Þórunn.

Hún segir Skaftfelling happaskip sem fyrir utan að flytja varning til fólksins við suðurströndina hafi bjargað mannslífum.

„Eitt sinn skutu Bretar niður þýskt skip og skipverjar á Skaftfellingi fiskuðu upp Þjóðverjana undir fallbyssukjöftum Breta. Þessi saga felst í þessu skipi fyrir utan allar hinar.“

Málþingið stendur frá klukkan 14 til 17. Það er hluti af kynningarátakinu Leyndardómar Suðurlands sem byrjar á morgun og stendur til 6. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×