Viðskipti innlent

Snúa aftur í séreignarsparnað

Anna Dröfn Ágústsdóttir skrifar
Mikið hefur verið að gera hjá bönkunum við gerð nýrra séreignarsparnaðarsamninga eftir að lög um húsnæðislán voru samþykkt á Alþingi.
Mikið hefur verið að gera hjá bönkunum við gerð nýrra séreignarsparnaðarsamninga eftir að lög um húsnæðislán voru samþykkt á Alþingi. Fréttablaðið/Pjetur
Fjöldi fólks hefur gert séreignarsparnaðarsamning við bankana vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í tengslum við húsnæðislán.

Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka, segir marga hafa hætt með séreignarsparnað í kjölfar efnahagshrunsins 2008 en margir þeirra hafa nú snúið aftur.

Hjá Íslandsbanka var farið í sérstakt átak og hringt í viðskiptavini til að kynna fyrir þeim möguleika í tengslum við séreignarsparnað eftir að ríkisstjórnin kynnti úrræði í tengslum við húsnæðislán. Una segist sjá verulega aukningu í gerð séreignarsparnaðarsamninga síðan í vor.

Hjá Arion banka var opnuð sérstök upplýsingasíða og fræðslufundir haldnir ásamt því að sérstaklega var haft samband við viðskiptavini. Snædís Ögn Flosadóttir, sérfræðingur á eignastýringasviði Arion banka, segir að séreignarsparnaðarsamningum hafi einnig fjölgað mikið hjá Arion banka í vor og sumar eftir að lög um leiðréttingu höfuðstóls íbúðarlána voru samþykkt á Alþingi.

Umsóknarfrestur um lækkun höfuðstóls íbúðalána er runninn út en áfram verður hægt að sækja um nýtingu séreignarsparnaðar. Tímabilið sem leyfilegt er að ráðstafa hluta af séreignarsparnaði skattfrjálst er frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2017.

Til að fá nýttan séreignarsparnað frá 1. júlí þurfti að sækja í síðasta lagi um í gær. Einstaklingar hafa rétt á að nýta 500 þúsund krónur á ári skattfrjálst af séreignarsparnaði sínum en hjón og sambýlisfólk hafa rétt á að ráðstafa 750 þúsund krónum samtals árlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×