Skoðun

Beiðni til ríkisstjórnarinnar

Auður Guðjónsdóttir skrifar
Á vordögum samþykkti Alþingi þingsályktun um aðgerðir í þágu lækninga við mænuskaða. Ályktunin er mjög til fyrirmyndar og verði henni fylgt eftir í stórum dráttum af ríkisstjórn gæti það leitt til ýmissa góðra hluta á alþjóðlegu taugavísindasviði. Í ályktuninni er kveðið á um fjögur meginatriði. Eitt þeirra og það sem ég vildi gera að áhersluatriði hér er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja eftir vitundarvakningu um málefni mænuskaða á alþjóðavettvangi, jafnhliða stuðningi við átak Sameinuðu þjóðanna um bætt umferðaröryggi. Í þeim tilgangi verði leitað stuðnings við það að eitt af þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem sett verða árið 2015 beinist að framförum í lækningu sjúkdóma og skaða í taugakerfinu.“

Á dögunum fóru Nóbelsverðlaunin í læknisfræði til eins af Norðurlöndunum. Þau fóru til taugakerfisins. Nóbelsverðlaunahafarnir uppgötvuðu frumur sem mynda staðsetningarhæfni heilans. Þessi merkilega uppgötvun gæti orðið grunnurinn að stórauknum skilningi á virkni miðtaugakerfisins ef vel er hlúð að.

Nú standa fyrir dyrum fundir íslenskra ráðherra með kollegum sínum á öðrum Norðurlöndum. Í tilefni Nóbelsverðlaunanna vil ég leyfa mér að beina þeirri ósk til þeirra ráðherra sem fundina sækja að nota tækifærið og hvetja samráðherra sína á Norðurlöndum til að standa saman um að þau leggi fram tillögu hjá Sameinuðu þjóðunum þess efnis að „aukinn skilningur á virkni taugakerfisins“ verði gerður að einu þróunarmarkmiðanna sem Sameinuðu þjóðirnar setja á næsta ári. Með því uppfylla íslensku ráðherrarnir það ákvæði í þingsályktuninni sem að framan greinir og styðja við taugavísindi á Norðurlöndum og í allri veröldinni. Alþjóðlegt taugavísindasvið þarf mjög á pólitískri aðstoð að halda.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×