Innlent

Annar aðstoðarmaður Gunnars Braga hættir störfum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Margrét starfaði sem annar tveggja aðstoðarmanna Gunnars Braga.
Margrét starfaði sem annar tveggja aðstoðarmanna Gunnars Braga. Vísir/Utanríkisráðuneytið
Margrét Gísladóttir, annar tveggja aðstoðarmanna Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, hefur sagt starfi sínu lausu. Undanfarna mánuði hefur hún starfað í forsætisráðuneytinu með starfsheitið sérstakur ráðgjafi ráðherra en nú er ljóst að hún mun ekki snúa aftur í utanríkisráðuneytið. Margrét greindi frá þessu á Facebook í morgun.

„Þá hef ég formlega tekið eina af stærri ákvörðunum og áhættum lífs míns. Frá og með næstu mánaðamótum segi ég skilið við starf mitt sem aðstoðarmaður ráðherra,“ skrifar hún í opinni færslu. Hún segir að framundan séu krefjandi og skemmtileg verkefni sem hún muni greina frá síðar.

Margrét segist þakklát fyrir tímann í ráðuneytinu. „Á sama tíma og ég er þakklát fyrir góða reynslu, gott samstarf og allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst á undanförnum árum er ég afar spennt fyrir þeim tíma sem nú tekur við. Þetta verður eitthvað...“ skrifar hún.

Margrét var ráðin aðstoðarmaður Gunnar Braga í maí árið 2013, þá 26 ára gömul. Hún er diplómu í almannatengslum og markaðssamskiptum frá Opna háskólanum í Háskólanum í Reykjavík og hafði áður sinnt verkefnum og verið ráðgjafi fyrirtækja og samtaka á sviði markaðsmála og almannatengsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×