Árni Vilhjálmsson, framherji Breiðabliks, er genginn í raðir norska úrvalsdeildarliðsins Lilleström. Fram kemur á heimasíðu norska félagsins að Árni skrifaði undir þriggja ára samning.
Árni skoraði tíu mörk fyrir Blika í Pepsi-deildinni á síðasta tímabili og níu árið áður, en hann fékk fyrst tækifæri með liðinu í efstu deild árið 2011, þá 17 ára gamall.
Hann skoraði í heildina 27 mörk fyrir Breiðablik í deild og bikar í 68 leikjum. Þá á hann að baki fimm leiki fyrir U21 árs landslið Íslands og 20 yfir U19 og U17 ára landsliðin.
„Árni æfði með okkur í nóvember og heillaði okkur mikið,“ segir Torgeir Bjarmann, yfirmaður knattspyrnumála hjá Lilleström.
Árni situr þessa stundina í flugvél á leið til Spánar þar sem hann hittir liðið í æfingabúðum þess á La Manga.
Hjá Lilleström verður Árni undir stjórn Rúnars Kristinssonar, fyrrverandi þjálfara KR, og þar hittir hann fyrir Finn Orra Margeirsson, fyrrverandi samherja sinn og fyrirliða Breiðabliks.

