Viðskipti innlent

Sex viðskiptavinir sem tengjast Íslandi afhjúpaðir í leka HSBC

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Einn af þeim sex viðskiptavinum sem tengjast Íslandi og afhjúpaðir eru í gögnum HSBC er með íslenskt vegabréf.
Einn af þeim sex viðskiptavinum sem tengjast Íslandi og afhjúpaðir eru í gögnum HSBC er með íslenskt vegabréf. Vísir/Getty
Útibú breska bankans HSBC í Sviss hjálpaði viðskiptavinum sínum að svíkja undan skatti og fela eignir fyrir skattayfirvöldum að því er fram kemur í leynilegum gögnum bankans sem afhjúpuð voru af evrópskum fjölmiðlum um helgina.

Gögnin eru frá árunum 2005-2007 og ný yfir 30.000 bankareikninga með heildarinnistæðu upp á 120 milljarða Bandaríkjadala. Gögnin sýna meðal annars að bankinn vann ásamt viðskiptavinum sínum að því að fela svokallaða „svarta“ reikninga fyrir skattayfirvöldum en á meðal viðskiptavina bankans voru til dæmis glæpamenn og spilltir viðskiptajöfrar.

Í gögnunum kemur fram að sex viðskiptavinir bankans tengist Íslandi á einhvern hátt, þar af er einn sem er með íslenskt vegabréf. Um 18 bankareikninga er að ræða með innistæðum upp á samtals 9,5 milljónir dollara.  

Kaupa yfirvöld gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum?

Mikil umræða hefur farið fram víða um heim varðandi skattaskjól, möguleika yfirvalda á að kaupa gögn um þá sem fært hafa peninga sína þangað og þar með skotið undan skatti í heimalandinu.

Ísland er þar engin undantekning og hefur Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra, sagt að ekki standi á sínu ráðuneyti að kaupa gögn úr erlendum skattaskjólum sem leitt gætu í ljós skattaundanskot Íslendinga. Boltinn sé hins vegar alfarið hjá skattrannsóknarstjóra sem Bjarni sakar um að draga lappirnar í málinu.

Haft er eftir Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata, í Fréttablaðinu í dag að hún efist um að Bjarni vilji kaupa umrædd gögn og segir ráðherrann draga þjóð sína á asnaeyrunum. Þá segir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, að Bjarni geti leyst málið með öðrum leiðum en því að senda skattrannsóknarstjóra tóninn í fjölmiðlum sé vilji til þess.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×